Ágúst átti stóran þátt í sigrinum

Ágúst Elí Björgvinsson var öflugur í marki Kolding í kvöld.
Ágúst Elí Björgvinsson var öflugur í marki Kolding í kvöld. Ljósmynd/Sävehof

Landsliðsmarkvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson átti stóran þátt í sigri Kolding á SönderjyskE, 31:29, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld.

Ágúst var með 40 prósent markvörslu í markinu hjá Kolding en hann varði 13 skot og þar af tvö af fjórum vítaköstum sem gestirnir frá Suður-Jótlandi fengu. Sveinn Jóhannsson skoraði ekki fyrir SönderjyskE en var einu sinni rekinn af velli.

Kolding er komið með fjögur stig eftir fjórar umferðir en SönderjyskE hafði unnið þrjá fyrstu leiki sína og er með sex stig.

mbl.is