Dýrkeyptar lokamínútur í botnslagnum

Ihor Kopyshynskyi skoraði 10 mörk fyrir Þórsara í kvöld.
Ihor Kopyshynskyi skoraði 10 mörk fyrir Þórsara í kvöld. mbl.is/Hari

Ihor Kopyshynskyi átti stórleik fyrir Þór þegar liðið heimsótti ÍR í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Austurberg í Breiðholti í 3. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 26:21-sigri Þórsara en Kopyshynskyi skoraði tíu mörk í leiknum, þar af þrjú úr vítaköstum.

Mikið jafnfræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Þórsarar náðu með þriggja marka forskoti, 13:10, en ÍR tókst að laga stöðuna fyrir hálfleik og Þór leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 13:11.

ÍR-ingar náðu ekki að minnka forskot Þórsara í upphafi síðari hálfleiks og þegar fimmtán múnútur voru til leiksloka leiddi Þór með fimm mörkum, 19:14. 

ÍR-ingum tókst að minnka muninn í þrjú mörk, 22:19, þegar fimm mínútur voru til leiksloka en Þórsarar skoruðu þrjú mörk í röð eftir það og ÍR tókst ekki að snúa leiknum sér í vil.

Valþór Atli Garðarsson skoraði fimm mörk fyrir Þórsara og Jovan Kukobat varði fimm skot í markinu hjá Akureyringum.

Hrannar Ingi Jóhannsson var markahæstur ÍR-inga með 8 mörk og Óðinn Sigurðsson varði sex skot í markinu.

Þórsarar fara með sigrinum upp í áttunda sæti deildarinnar í 2 stig en ÍR er nú eina lið deildarinnar sem er án sigurs eftir fyrstu þrjá leiki sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert