Áttum þetta inni hjá dómurunum

Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu ræðir við sína menn í …
Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu ræðir við sína menn í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Fyrstu viðbrögð eru blendin. Þetta hafa verið spennuleikir hjá okkur í fyrsta leiknum vorum við svekktir að tapa í öðrum leiknum vorum við svekktir að vinna ekki. Núna fannst mér við vinna þetta stig,“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu eftir 25:25 jafntefli gegn KA í þriðju umferð Olísdeildar karla í handknattleik í dag.

„Við vorum búnir að bjóða þeim að vera yfir síðustu tíu mínúturnar þannig að þetta eru blendnar tilfinningar en bara ánægður með stigið, þetta hefði getað endað með núll stigum.“

Hvernig fannst Arnari spilamennska síns lið ganga í dag?

„Hún var upp og ofan. Fyrri hálfleikurinn var fínn, við erum búnir að leiða 13:11 í öllum leikjum okkar hingað til og við erum að leiða í fyrri hálfleik. Við þurfum að lengja þann kafla hjá okkur. Við erum í fyrsta skipti að lenda undir síðustu tíu mínúturnar og mér fannst strákarnir bregðast vel við því. Mörg lið hefðu getað brotnað í þessari stöðu, mér finnst það jákvætt en það er margt annað sem mætti vera töluvert betra.“

Stefán Huldar átti góðan leik í marki Gróttu en hann varði 13 skot. Aðspurður út í spilamennsku hans sagði Arnar: 

„Hann er fáránlega góður markmaður en ég hefði samt viljað að hann hefði varið meira. Það voru nokkrir boltar sem hann hefði getað klárað. En hann tekur lykilmarkvörslu þegar það eru tvær mínútur eftir. Ég var næstum því búinn að taka hann útaf en ég sé ekki eftir því núna. En við viljum alltaf meira og hann á meira inni.“

KA-menn voru ósáttur við dóm undir lok leiks þegar leikmaður Gróttu skaut í stöng og út af og Gróttu menn fengu boltann þar sem dómararnir vildu meina að markmaður KA hafi snert boltann. Hvernig leit það atvik við Arnari?

„Ég eiginlega sá þetta ekki en ég er feginn að dómararnir hafi séð þetta ef þetta er það sem gerðist. Mér fannst við bara eiga þetta inni hjá dómurunum ef eitthvað er. Mér fannst margir 50/50 dómar falla gegn okkur þannig ég veit ekki hvort við áttum þetta inni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert