Framarar öflugir í seinni hálfleik

Hart tekist á í Fram heimilinu í dag.
Hart tekist á í Fram heimilinu í dag. mbl.is/Íris

Fram vann 32:23-sigur á Haukum í Framhúsinu í Olísdeild kvenna í handknattleik rétt í þessu. Það voru gestirnir sem höfðu forystu framan af leik en deildarmeistararnir sneru taflinu við eftir hlé.

Haukar voru yfir lengst af í fyrri hálfleik en munurinn var þó aldrei meiri en tvö mörk. Framarar komust svo yfir rétt fyrir hlé, staðan 13:12 í hálfleik. Haukar biðu í sjö mínútur eftir sínu fyrsta mark í síðari hálfleik og var þá staðan orðin 18:13 og litu heimakonur ekki um öxl eftir það, unnu sannfærandi sigur.

Karólína Bæhrenz, sem gekk til liðs við Framara í sumar, var markahæst með níu mörk úr ellefu skotum. Ragnheiður Júlíusdóttir var næst með sex mörk. Í liði Hauka skoraði Karen Helga Díönudóttir fimm mörk.

Fram er nú með fjögur stig eftir þrjá leiki en liðið vann HK í fyrstu umferðinni og tapaði svo í stórleiknum gegn Val. Haukar eru með tvö stig, unnu nágranna sína í FH en hafa tapað gegn Fram og Val.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert