Kúltúrinn í bandalaginu sterkur

Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði Eyjamanna, skýtur að marki Valsara í …
Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði Eyjamanna, skýtur að marki Valsara í leiknum í dag. mbl.is/Sigfús Gunnar

Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði Eyjamanna, var augljóslega sáttur með góðan sigur liðsins gegn Val í 3. umferð Olísdeildar karla. Leiknum lauk með fjögurra marka sigri 28:24, staðan var 18:10 í hálfleik og róðurinn þungur fyrir gestina.

„Fyrri hálfleikurinn vann þetta, staðan var 18:10 í hálfleik og við hefðum getað verið meira yfir í hálfleik. Vorum klaufar að koma þessu ekki í fimm eða sex mörk þegar það voru svona 10 mínútur búnar, það var langt í +6 eða 7 markið,“ sagði Kári en liðið byrjaði ekki nógu vel í seinni hálfleik.

„Við vorum alltof lengi inni í leikinn sóknarlega í seinni hálfleik, svo vorum við með ofboðslega mikið af tæknifeilum á seinni hlutanum í seinni hálfleik. Þeir fóru í 5-1 vörnina, við erum ekki nógu graðir eða áræðnir í upphafi síðari hálfleiks. Það er bara eins og það er.“

Kúltúrinn í bandalaginu sterkur

Munurinn á markvörslunni var mikill í dag, markverðir Eyjamanna vörðu fjórtán skot en markverðir gestanna sjö. 

„Petar var frábær í fyrri hálfleik og þar var staðan 18:10, en þeir skoruðu úr hverri einustu sókn í byrjun seinni hálfleiks. Björn kom inn og það er sterkt að geta skipta svona öflugum manni inn, ég veit ekki hlutfallið en við vorum örugglega með töluvert fleiri tapaða bolta.“

Eyjamenn misstu mikið af leikmönnum fyrir tímabilið og þeir menn sem komu inn tóku lítinn eða engan þátt í leiknum í dag. Sigtryggur Daði Rúnarsson var meiddur og Ásgeir Snær Vignisson meiddist í upphafi leiks. Kári segir að kúltúrinn í liðinu sé orðinn ein af ástæðunum fyrir því hve sterkt liðið er.

„Kúltúrinn í bandalaginu er orðinn ofboðslega sterkur, það er það sem nýju leikmennirnir koma inn í hjá okkur. Það hafa margir farið í gegnum prógrammið hjá okkur eins og Aggi (Agnar Smári Jónsson), Robbi (Róbert Aron Hostert), Fannar (Friðgeirsson), Sigurbergur (Sveinsson) og Donni (Kristján Örn Kristjánsson). Þetta eru peyjar sem komust inn í kúltúrinn og urðu betri leikmenn, ég er samt ekki að segja að Fannar og Sigurbergur hafi ekki verið klassastærðir. Þetta skipti þá máli og eyjan var fljót að grípa þá, það skiptir máli þegar þú ert að berjast fyrir málstað.“

Marcus Ahlm klökkur heima

Leikmenn ÍBV byrjuðu síðasta leik ekki vel gegn Haukum, var það planið að byrja þennan leik þá af enn meiri krafti fyrir vikið?

„Það fer tvennum sögum af því af hverju við förum svona hægt af stað á móti Haukum, við komumst aldrei í takt við þann leik. Við erum engu að síður ekki nógu góðir karakterar að láta mótlætið ekki brjóta okkur. Þetta var fyrsti heimaleikurinn og það var geggjað að finna fyrir fólkinu í dag.“

Kári hefur aldrei verið þekktur fyrir góðan varnarleik en hann sinnti stóru varnarhlutverki í dag, hvað fannst honum um það?

„Ég var í rennilásnum eins og kóngur, Marcus Ahlm hann er klökkur heima hjá sér með þetta á repeat, það er ljóst. Komdu með nokkrar löglegar stöðvanir á mig og ég er nokkuð sáttur,“ sagði Kári að lokum sem var sáttur með sinn leik í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert