Þarf að setja boltann í netið á lykilaugnablikum

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er óánægður með að hafa ekki náð að landa sigri í þessum leik,“ sagði Jónatan Magnússon þjálfari KA eftir 25:25 jafntefli gegn Gróttu á Akureyri í þriðju umferð Olís deildar karla nú í dag. 

“Þetta var háspennuleikur og nú erum við búnir að spila þrjá háspennuleiki og  með yfirhöndina í þessum tveimur síðustu. Það er það sem ég svekktur með að hafa ekki náð að klára þetta.“

Aðspurður um spilamennsku KA-liðsins í leiknum í dag sagði Jónatan: 

„Mér fannst hún svo sem ekkert góð. Mér fannst við ekki ná góðum takti sóknarlega. Heildar bragurinn sóknarlega fannst mér ekki góður og við getum gert betur þar. Á köflum varnarlega vorum við betri en það eru ákveðin atriði sem við lögðum upp sem mér fannst við ekki ná að framkvæma. Við ætluðum að hlaupa meira á þá. Við náðum því ekki og sóknartakturinn hjá okkur hefði mátt vera betri.“

KA-menn fengu tækifæri til þess að landa sigrinum hér í dag. Meðal annars þegar Daði Jónsson fékk frábært færi til að koma liðinu í tveggja marka forystu. Aðspurður um lokakafla leiksins sagði Jónatan:

„Klárlega það er bara það sem kemur til að vera í deildinni núna. Þetta eru lykil augnablik þar sem við þurfum að setja boltann í netið.“

Eftir þrjá leiki er KA liðið með fjögur stig. Jónatan var spurður um upphaf mótsins hjá sínu liði og deildina í heild:

“Mér lýst vel á deildina. Það er að sýna sig núna, að það er búið að vera mikið af spennandi leikjum og fáir leikir sem að hafa unnist með miklum mun. Við höfum lagt mikið í leikina og við höfum gjarnan viljað vera með tveimur stigum meira en það verður ekki tekið af okkur að erum þá allavega búnir að ná í þessi stig og við verðum bara að taka þau með okkur og ná þá í næstu tvo punkta.“

Jónatan Magnússon ræðir við sína menn á Akureyri í dag.
Jónatan Magnússon ræðir við sína menn á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert