Bikarmeistaratitlinum verður fagnað seinna

Viktor Gísli Hallgrímsson hefur byrjað tímabilið frábærlega í Danmörku.
Viktor Gísli Hallgrímsson hefur byrjað tímabilið frábærlega í Danmörku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson varði tólf skot og var með 38% markvörslu þegar lið hans GOG varð danskur bikarmeistari eftir 30:28-sigur gegn Holstebro í úrslitaleik í Holstebro í Danmörku á sunnudaginn síðasta.

Þetta var í tíunda skiptið sem GOG verður bikarmeistari en upphaflega átti danska bikarhelgin fyrir tímabilið 2019-20 að fara fram í mars en henni var frestað fram í september vegna kórónuveirufaraldursins.

Viktor Gísli, sem er tvítugur, gekk til liðs við danska félagið frá uppeldisfélagi sínu Fram síðasta sumar og hefur verið lykilmaður í liði GOG á leiktíðinni.

GOG er með 7 stig í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, 3 stigum minna en topplið Álaborgar, en GOG á leik til góða á Álaborg.

„Þetta var fyrst og fremst geggjuð upplifun að fá að taka þátt í þessum úrslitaleik og bikarhelginni,“ sagði Viktor Gísli í samtali við Morgunblaðið í gær. „Það voru smá þreytumerki á liðinu í úrslitaleiknum enda erfitt að spila tvo leiki á tveimur dögum en það var fljótt að gleymast eftir að við höfðum tryggt okkur sigur. Þetta var minn fyrsti titill í meistaraflokki og tilfinningin var ansi sérstök.

Að sama skapi hefur þetta ár verið ansi sérstakt vegna kórónuveirufaraldursins. Við fögnuðum á sunnudeginum en á mánudeginum hófst strax undirbúningur fyrir seinni leikinn gegn Pfadi Winterthur í Sviss í 2. umferð Evrópudeildarinnar þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina.

„Við náðum þess vegna ekki að fagna neitt að ráði og menn voru lítið að missa sig í gleðskapnum en það verður hins vegar gert seinna meir. Maður er ennþá að meðtaka þennan bikar og mér líður ekki beint eins og ég hafi verið að vinna eitthvað en það kemur vonandi seinna meir,“ bætti Viktor Gísli við en leiknum gegn Pfado Winterhur lauk með 35:31-sigri Svisslendinga og samanlögðum 64:59-sigri GOG sem er komið áfram í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Sáttur með eigin frammistöðu

GOG leiddi með einu marki í úrslitaleiknum, 26:25, þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka en Viktor Gísli átti nokkrar lykilvörslur á lokamínútunum.

„Þetta var mjög svipaður leikur þannig séð og undanúrslitaleikurinn gegn Bjerringbro-Silkeborg. Við vorum með nokkuð þægilegt forskot þegar um tíu mínútur voru til leiksloka en þá fer sóknarleikurinn aðeins að hiksta. Við förum illa með okkar sóknir á meðan þeir nýta sínar og þannig koma þeir sér inn í leikinn. Morten Olsen var hins vegar frábær undir restina og náði að dæla inn einhverjum mörkum fyrir okkur á lokakaflanum, sem betur fer.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert