Algjörlega ótímabær umræða

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, lengst til vinstri.
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, lengst til vinstri. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Við erum ennþá að bíða eftir tilmælunum og reglugerðinni sem slíkri en þetta var viðbúið,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ í samtali við mbl.is í dag.

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, starf­andi heil­brigðisráðherra, til­kynnti í dag að öll íþróttaiðkun verði bönnuð frá og með 20. októ­ber næst­kom­andi, bæði á höfuðborg­ar­svæðinu og utan þess vegna þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins.

Regl­urn­ar verða í gildi í að minnsta kosti tvær vik­ur, jafn­vel þrjár, en íþrótta­bann hef­ur verið við lýði á höfuðborg­ar­svæðinu frá því í byrj­un októ­ber.

„Það er svo sem ekki mikið um þetta annað að segja en að við bíðum bara þolinmóð eftir því hver næstu skref verða. Munu liðin út á landi sem dæmi áfram getað æft?

Hversu lengi erum við að tala um að nýjustu reglur verði í gildi, eru það tvær eða þrjár vikur? Við þurfum einfaldlega bara að sjá hver þróunin verður og það er mörgu ósvarað í þessu eins og staðan er núna.“

Afturelding hefur byrjað tímabilið vel í karlaflokki og er í …
Afturelding hefur byrjað tímabilið vel í karlaflokki og er í efsta sæti deildarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Bjartsýnn á framhaldið

Þrátt fyrir frestanir er Róbert bjartsýnn og telur að þetta muni ekki hafa víðtæk áhrif á mótahald.

„Við erum nú þegar búin að fresta tveimur umferðum hjá okkur og ef við erum að tala um tvær vikur í viðbót þá verða þetta tvær umferðir í viðbót og síðan tekur við landsliðshlé.

Við erum þá að tala um fjórar umferðir sem standa eftir en við eigum að geta unnið þær upp fyrir áramót, ef ekki þarf að fresta móthaldi frekar.

Því lengur sem við erum í æfinga- og keppnisbanni, því víðtækari eru  áhrifin. Það mun taka íþróttafólkið okkar tíma að koma sér í gang aftur eftir æfingabann og við gætum þess vegna þurft einhverjar vikur, eftir að æfingabanninu verður aflétt, til þess að hefja keppni að nýju.

Það er hins vegar langt frá því að vera óyfirstíganlegt og ég er bara mjög bjartsýnn á að það verði lítið mál að vinna upp þá leiki sem við erum búnir að þurfa fresta og gætum þurft að fresta.“

Fram varð bikar- og deildarmeistari í kvennaflokki á síðustu leiktíð …
Fram varð bikar- og deildarmeistari í kvennaflokki á síðustu leiktíð áður en tímabilinu var aflýst. mbl.is/Íris

Átta mánuðir eftir

Róbert segir að HSÍ sé tilbúið að spila inn í sumarið til þess að klára tímabilið.

„Það er langt í þá ákvörðun og algjörlega ótímabært að velta því fyrir sér. Tímabilið er bara nýbyrjað, einhver mánuður.

Við erum tilbúin að spila út júní á næsta ári og það eru því átta mánuðir eftir af tímabilinu eins og staðan er í dag,“ bætti Róbert við í samtali við mbl.is.

mbl.is