Missir Karabatic af Ólympíuleikunum?

Nikola Karabatic verður áhorfandi næstu mánuðina.
Nikola Karabatic verður áhorfandi næstu mánuðina. AFP

Franski heims- og ólympíumeistarinn í handknattleik, Nikola Karabatic, sleit krossband í leik með stórliðinu París Saint Germain á laugardaginn. 

Parísarliðið lék gegn Ivry á laugardaginn og meiddist Karabatic í leiknum. Samkvæmt frétt franska blaðsins L'Equipe þá virtust meiðslin ekki vera mjög alvarleg en annað hefur komið í ljós og París SG greindi frá því í morgun. 

Ljóst er að Karabatic verður frá keppni í marga mánuði. Þar af leiðandi er ljóst að París SG verður án hans á milli jóla og nýárs þegar til stendur að útkljá Meistaradeild Evrópu 2019-2020 en þá verður úrslitahelgin í Köln sem átti að vera í byrjun júní. Parísarliðið náði inn í undanúrslit keppninnar með mikla kappa innanborðs sem nýtast ekki þegar að því kemur að útkljá mótið. Karabatic á sjúkralistanum, Guðjón Valur Sigurðsson hefur snúið sér að þjálfun og Sander Sagosen leikur nú með Kiel. 

Auk þess er ljóst að Karabatic verður ekki með á HM í Egyptalandi í janúar. 

L'Equipe veltir því fyrir sér hvort Karabatic verði leikfær í júlí þegar Ólympíuleikarnir fara fram í Tókýó í Japan. Gömlu kempurnar Karabatic og Luc Abalo höfðu báðir gefið út að þeir gæfu kost á sér í verkefnið en báðir voru þeir í sigurliðum Frakka á leikunum 2008 og 2012. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert