Tvö lið send heim komi upp eitt smit

Frakkar eru ríkjandi Evrópumeistarar.
Frakkar eru ríkjandi Evrópumeistarar. AFP

EM kvenna í handbolta fer fram í Danmörku og Noregi í desember og hafa harðar sóttvarnarreglur vakið athygli. Greinist einn leikmaður smitaður í liði verða tvö lið send heim. 

Ef einn leikmaður greinist með kórónuveirusmit verður ekki aðeins landslið viðkomandi leikmanns sent heim af mótinu heldur einnig liðið sem það mætti í leiknum á undan. Þannig verða reglurnar hjá þeim liðum sem spila í Noregi hið minnsta. 

„Við erum aðeins að framfylgja tilmælum yfirvalda og þau eru ströng,“ sagði Erik Langerud, framkvæmdastjóri norska handknattleikssambandsins við TV2. 

Reglurnar í Danmörku eru ekki eins strangar. Smitast hjá liði sem spilar í Danmörku verður sá leikmaður sendur í einangrun en aðrir leikmenn geta haldið áfram leik, svo lengi sem þeir eru ekki líka smitaðir. Þá verða 200 áhorfendur leyfilegir í Noregi en 500 í Danmörku. 

Alls verða 16 þátttökuþjóðir á mótinu og meirihluti leikjanna fram í Noregi. Liðin sem leika í riðlakeppninni í Þrándheimi eru Holland, Ungverjaland, Serbía, Króatía, Rómenía, Noregur, Þýskaland og Pólland. Annar milliriðillinn verður einnig leikinn í Þrándheimi sem og útsláttarkeppni mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert