Landsleik frestað – HSÍ mótmælir

Ísraelsmenn fá líklega lengri tíma til að funda um hvernig …
Ísraelsmenn fá líklega lengri tíma til að funda um hvernig hægt sé að stöðva Aron Pálmarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur tekið þá ákvörðun að fresta leik Íslands og Ísraels í undankeppni EM karla sem fara átti fram í Laugardalshöllinni hinn 7. nóvember. 

Samkvæmt tilkynningu frá HSÍ fór Handknattleikssamband Ísraels fram á að leiknum yrði frestað vegna kórónuveirufaraldursins. HSÍ fékk fregnirnar í tölvupósti í morgun. 

Ekki hefur ný dagsetning verið ákveðin en HSÍ hefur mótmælt frestuninni harðlega eins og það er orðað í fréttatilkynningunni. Bíður HSÍ nú frekari svara og rökstuðnings frá EHF. 

Ísland mætir Litháen í Laugardalshöllinni eftir slétta viku. Leikur Íslands og Ísraels var settur þremur dögum síðar og færður til Reykjavíkur en hann átti að vera í Ísrael. Var hann færður vegna útgöngubanns í Ísrael.

mbl.is