Ákvörðun sem á ekki við rök að styðjast

Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans í íslenska karlalandsliðinu hefja …
Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans í íslenska karlalandsliðinu hefja leik í undankeppni EM 2022 í næstu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsleik Íslands og Ísraels í undankeppni EM 2022 sem fara átti fram í Laugardalshöll 7. nóvember hefur verið frestað af Handknattleikssambandi Evrópu, EHF.

Í tilkynningu sem HSÍ sendi frá sér í gær var það að beiðni Handknattleikssambands Ísraels sem leiknum var frestað en vegna ferðatakmarkana af völdum kórónuveirufaraldursins eiga Ísraelar erfitt með að koma sér til landsins meðal annars.

HSÍ hefur mótmælt ákvörðun EHF harðlega enda hefur allur undirbúningur sambandsins miðað við það að íslenska liðið sé að fara að leika tvo leiki í landsleikjaglugganum, annars vegar gegn Litháen 4. nóvember og svo Ísrael, en báðir leikirnir eiga að fara fram í Laugardalshöll.

„Við fengum bréf frá evrópska handknattleikssambandinu þar sem leiknum var einfaldlega frestað á þeim forsendum að Ísraelsmenn væru í erfiðleikum með ferðaplön innan Evrópu,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Þá eiga þeir það líka á hættu að þurfa að fara í sóttkví við komuna til Ísraels en samt sem áður ætla þeir sér að spila leikinn á móti Portúgal í Portúgal 4. nóvember sem okkur finnst skjóta skökku við.

Á þeim forsendum höfum við þess vegna mótmælt þeirri ákvörðun að fresta leiknum þar sem okkur finnst rökin á bak við hana ekki standast,“ sagði Róbert enn fremur.

Fjárhagslegt tjón

Róbert á ekki von á því að leikurinn við Ísrael muni fara fram í næstu viku, þrátt fyrir kröftug mótmæli.

„Við höfum ekki enn þá fengið svar varðandi þessi mótmæli okkar og ég á von á því að það muni koma á næstu dögum. Úr því að við höfum ekki fengið nein svör enn sem komið er þá tel ég afar ólíklegt að evrópska handknattleikssambandið muni breyta ákvörðun sinni.

Allur undirbúningur okkar fyrir þetta verkefni hefur miðast við það að um tvo landsleiki sé að ræða. Það á eftir að skýrast aðeins betur hversu mikið tjón þetta er en það er alveg ljóst að við þurfum að breyta bæði flugplönum og hótelplönum eins og staðan er í dag.“

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »