Landsliðsmenn í Þýskalandi fá grænt ljós

Bjarki Már Elísson leikur með Lemgo í Þýskalandi.
Bjarki Már Elísson leikur með Lemgo í Þýskalandi. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Íslenskir landsliðsmenn í handknattleik, sem leika með félagsliðum í Þýskalandi, hafa fengið leyfi til þess að taka þátt í leik Íslands og Litháen í undankeppni EM 2022 sem fram fer í Laugardalshöll hinn 4. nóvember næstkomandi.

Þetta staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við handbolta.is í dag.

Í síðustu viku fékk skrifstofa HSÍ sent bréf frá félögum í Þýskalandi þar sem óskað var eftir upplýsingum varðandi sóttvarnir og annað í kringum landsleikina tvo gegn Litháen og Ísrael en í gær tilkynnti EHF að leik Íslands og Ísraels hefði verið frestað.

Allir leikmenn Íslands fara í vinnusóttkví við komuna til landsins og verða í svokallaðri búbblu hér á landi.

„Það var mikill léttir að fá staðfestinguna,“ sagði Róbert í samtali við handbolta.is en alls leika níu leikmenn í landsliðshópnum í Þýskalandi og þá er Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari Melsungen í efstu deild Þýskalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert