Landsliðsþjálfarinn í einangrun á eyju

Nicolaj Jacobsen þjálfar Dani.
Nicolaj Jacobsen þjálfar Dani. Ljósmynd/rhein-neckar-loewen.de

Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik, er búinn að setja sig í sjálfskipaða einangrun á heimili sínu á eyjunni Thurö, við suðurodda Fjóns, þar til liðið kemur saman á mánudaginn kemur.

Hann ætlar ekki að taka minnstu áhættu á að komast í snertingu við kórónuveiruna á næstu dögum og sleppir því m.a. að horfa á handboltaleiki hjá börnunum sínum um helgina. Danska landsliðið kemur saman á mánudaginn vegna tveggja leikja í undankeppni EM.

„Það versta sem gæti gerst væri að ég færi til að horfa á handboltaleik, myndi hitta nokkra landsliðsmenn, og það myndi leiða af sér dreifingu á smiti í allar áttir. Ég vil forðast það," segir Jacobsen við TV2 í Danmörku.

Danska liðið kemur saman í Herning og verður þar í einangrun á sérhæð á hóteli í borginni og þar verða allir skimaðir fyrir kórónuveirunni. Danir mæta Sviss í Herning á miðvikudaginn og Finnlandi á útivelli á laugardaginn.

mbl.is