Íslendingarnir öflugir í Danmörku

Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður.
Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Þrír Íslendingar kepptu með liðum sínum í dönsku efstu deildinni í handknattleik í dag og allir áttu þeir afbragðs leik. Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson var þó sá eini sem var í sigurliði.

Viktor og félagar í GOG höfðu betur gegn Sveini Jóhannssyni í SönderjyskE en leikurinn fór 35:27 fyrir GOG. Viktor varði 11 af 25 skot og var því með um 44% markvörslu en Sveinn var ekki síður góður í sínu liði, skoraði átta mörk úr níu skotum.

Þá var Elvar Örn Jónsson drjúgur í liði Skjern sem tapaði 30:28 á heimavelli gegn Aalborg. Elvar skoraði sjö mörk úr átta skotum en það dugði ekki til. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg sem er áfram á toppi deildarinnar. GOG er í öðru sæti, stigi á eftir og á leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert