Danir reyna að taka alfarið að sér mótshaldið

Þórir Hergeirsson og hans konur stefna vafalítið hátt á EM …
Þórir Hergeirsson og hans konur stefna vafalítið hátt á EM þrátt fyrir óvissuna sem fylgir mótshaldinu. AFP

Handknattleikssamband Evrópu (EHF) og danska handknattleikssambandið eiga nú í viðræðum vegna Evrópumóts kvenna í handknattleik. 

Til stóð að Danmörk og Noregur héldu mótið í sameiningu eins og þjóðirnar gerðu árið 2010. Norska handknattleikssambandið hætti hins vegar við eins og fram kom á dögunum þar sem sóttvarnaaðgerðir í landinu gera mótshöldurum erfitt fyrir. 

Í tilkynningu frá EHF kemur fram að báðir aðilar skoði með opnum huga að Danir taki alfarið að sér mótshaldið en viðræðurnar standa enn yfir. Mótið fer fram 3. - 20. desember en úrslitaleikurinn átti að fara fram í Noregi. Fyrir tíu árum fór úrslitaleikur mótsins fram í Herning í Danmörku. 

Ísland á fulltrúa á mótinu því Þórir Hergeirsson er þjálfari norska landsliðsins eins og undanfarin ár. 

mbl.is