Hefur gengið lygilega vel

Viggó Kristjánsson hefur farið á kostum með Stuttgart í þýsku …
Viggó Kristjánsson hefur farið á kostum með Stuttgart í þýsku 1. deildinni í upphafi tímabils. Ljósmynd/Stuttgart

Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, hefur hafið tímabilið með Stuttgart í þýsku 1. deildinni af gríðarlegum krafti. Viggó, sem leikur í stöðu hægri skyttu, hefur skorað 71 mark í 9 leikjum á tímabilinu og er markahæstur í deildinni ásamt hinum austurríska Robert Weber, leikmanni Nordhorn-Lingen. Bjarki Már Elísson, leikmaður Lemgo, er í 3. sæti með 61 mark.

Stuttgart er fjórða félagsliðið sem Viggó leikur fyrir á um einu og hálfu ári. Hann spilaði á þarsíðasta tímabili fyrir West Wien í austurrísku 1. deildinni og skipti svo yfir til Leipzig í þýsku 1. deildinni. Þaðan fór hann til Wetzlar og spilar nú með Stuttgart. Viggó útskýrði af hverju félagsskiptin hafa verið svona tíð hjá honum að undanförnu:

„Ég var í Austurríki á þarsíðasta tímabili og langaði virkilega að taka skrefið til Þýskalands en var með samning áfram í Austurríki og því var ekki auðvelt að losna. Það þurfti að kaupa mig burt. Undir lok apríl 2019 meiðist skytta hjá Leipzig þannig að þá vantar leikmann fyrir næsta tímabil og ákveða að kaupa mig. Ég síðan byrja tímabilið hjá þeim og ég er mjög ánægður þar enda mjög flottur klúbbur. Þar var ég varamaður fyrir Franz Semper og fékk mínútur hér og þar.

Svo kom í nóvember á síðasta ári mjög óvænt tilboð frá Wetzlar. Þá vantaði skyttu og ég sá það bara sem gott tækifæri. Bæði buðu þeir góðan samning og Wetzlar hefur verið þekkt síðustu ár fyrir að hafa byggt upp mjög marga góða leikmenn sem hafa farið í stórlið. Ég sá því fram á að geta bætt mig heilmikið þar, sem varð síðan raunin. Þó ég hafi ekki verið númer eitt þar fannst mér ég bæta mig og læra heilmikið,“ sagði hinn 26 ára gamli Viggó.

Mikill styrkleikamunur

„Maður tekur alltaf einhverja hluti frá hverju liði og hverjum þjálfara. Þjálfararnir í bæði Leipzig og Wetzlar voru báðir mjög flottir en mjög ólíkir og með ólíkar áherslur. Ég tók margt með mér frá þeim báðum.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »