Ákvað að setja handboltann í fyrsta sætið í þetta skipti

Bjarni Ófeigur Valdimarsson er kominn til Svíþjóðar.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson er kominn til Svíþjóðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Ófeigur Valdimarsson ákvað að velja handboltann fram yfir námið þegar hann samdi við sænska úrvalsdeildarfélagið Skövde á dögunum.

Bjarni Ófeigur er 21 árs gamall en hann hefur leikið með FH í Hafnarfirði undanfarin ár og varð bikarmeistari með liðinu í mars 2019.

Stórskyttan stundar nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík en hann mun að öllum líkindum leika sinn fyrsta leik fyrir Skövde gegn Varberg í Skövde á laugardaginn kemur.

„Þeir vildu fá mig strax út en það dróst aðeins þar sem ég er í námi. Ég var í miðjum lokaprófum og ég fékk þess vegna leyfi til þess að klára öll próf áður en ég færi út,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið en hann hélt út til Svíþjóðar um síðustu helgi.

„Forráðamenn Skövde höfðu fyrst samband við mig fyrir nokkrum vikum og þá voru þeir meira að kanna stöðuna á mér. Upphaflega vildu þeir fá mig út til sín næsta sumar en svo breyttist hljóðið í þeim fyrir nokkrum dögum. Þá voru þeir tilbúnir að kaupa upp samning minn við FH þar sem þeir vildu fá mig strax út.

Ég þurfti aðeins að melta þetta enda stóð alltaf til að klára BA-námið í lögfræði heima á Íslandi, áður en ég færi út í atvinnumennsku. Ég átti nokkra góða fundi með forráðamönnum félagsins og eftir því sem leið á leist mér alltaf betur og betur á þetta. Ég ákvað svo að slá til og ég er mjög jákvæður og auðvitað spenntur fyrir þessu frábæra tækifæri.

Ég tel að þetta sé mjög gott skref fyrir minn feril enda er Skövde flottur klúbbur og það er allt til alls þarna ef svo má segja,“ sagði Bjarni en Skövde hefur farið vel af stað á tímabilinu og er í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig eftir tólf umferðir, tveimur stigum minna en topplið Ystads.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert