Grétar Ari átti góðan leik í sigri

Grétar Ari Guðjónsson í leik með Haukum á síðasta tímabili.
Grétar Ari Guðjónsson í leik með Haukum á síðasta tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Grétar Ari Guðjónsson varði 10 skot og var með 30 prósent markvörslu í öruggum 30:23 sigri Nice gegn Besancon í frönsku 2. deildinni í handknattleik karla í dag. Sigurinn var aldrei í hættu og lék Grétar Ari allan leikinn.

Grétar Ari, sem er 24 ára gamall, var í síðustu viku valinn í 35 manna æfingahóp íslenska landsliðsins fyrir HM, sem fer fram í Egyptalandi í janúar á næsta ári. Hann á sjö landsleiki að baki.

Grétar Ari er á sínu fyrsta leiktímabili með Nice eftir að hafa komið frá Haukum síðastliðið sumar. Þetta var aðeins annar sigur liðsins í fyrstu sjö leikjunum á tímabilinu og það er í áttunda sæti af fjórtán liðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert