Frjósemi í Kópavogi

Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir í leik með HK gegn KA/Þór á …
Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir í leik með HK gegn KA/Þór á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Handknattleikskonan Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir leikur ekki meira með HK á komandi keppnistímabili í úrvalsdeild kvenna, Olísdeildinni, en það er handbolti.is sem greinir frá þessu.

Valgerður er barnshafandi en hún er í sambandi með handknattleiksmanninum Leó Snæ Péturssyni sem er samningsbundinn Stjörnunni í Garðabæ.

Valgerður á von á sér í júní á næsta ári en hún hefur verið í algjöru lykilhlutverki hjá HK undanfarin ár.

Leikstjórnandinn er næstmarkahæsti leikmaður HK með 14 mörk í fyrstu þremur leikjum keppnistímabilsins en ekkert hefur verið leikið í efstu deild kvenna síðan í byrjun október vegna þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins.

Valgerður skoraði 84 mörk fyrir HK á síðustu leiktíð en þá var liðið í fjórða sæti deildarinnar þegar tímabilið var blásið af vegna kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert