Gamla ljósmyndin: Íslendinganýlenda

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Af og til gerist það að íþróttalið erlendis eru með nokkra íslenska leikmenn á sínum snærum. Fimm Íslendingar í sama liði er vel í lagt en Morgunblaðið greindi frá því 3. maí árið 2003 að danska handknattleiksliðið Tvis Holstebro hefði samið við þrjár íslenskar landsliðskonur og alls séu þá fimm íslenskar handboltakonur samningsbundnar félaginu. 

Tvis Holstebro tryggði sér þá krafta Helgu Torfadóttur markvarðar, Hönnu Guðrúnar Stefánsdóttur hornamanns og línumannsins Ingu Fríðu Tryggvadóttur fyrir keppnistímabilið 2003-2004. Í marsmánuði sama ár hafði leikstjórnandinn/skyttan Kristín Guðmundsdóttir einnig samið við félagið um að leika með því 2003-2004. Fyrir hjá félaginu var stórskyttan Hrafnhildur Skúladóttir sem hafði leikið eitt keppnistímabil með liðinu í dönsku úrvalsdeildinni. 

Liðið hafði hins vegar fallið niður um deild og nú stóð til að blása í herlúðra en Holstebro er borg á Jótlandi. John Mikkelson, framkvæmdastjóri félagsins, kom til Íslands í þeim erindagjörðum að gera samninga við Helgu, Hönnu og Ingu Fríðu og veitti hann Morgunblaðinu viðtal. 

Hrafnhildur var besti leikmaður liðsins á síðasta tímabili og var fimmta markahæst í dönsku úrvalsdeildinni, þar sem hún skoraði 166 mörk í 22 leikjum. Hún hefur það hugarfar sem við sækjumst eftir, hugarfar sigurvegarans. Við viljum gjarnan fá fleiri slíka leikmenn til liðs við okkur og teljum að við getum fundið þá hér á Íslandi. Okkar markmið er að byggja upp framtíðarlið sem nær festu og stöðugleika í úrvalsdeildinni,“ sagði Mikkelsen meðal annars í samtali við Ingibjörgu Hinriksdóttur. 

Á myndinni eru leikmennirnir fimm komnar í treyju liðsins. Frá vinstri: Hanna, Inga Fríða, Helga, Kristín og Hrafnhildur. Mikkelsen er einnig með þeim á myndinni sem tekin var af Árna Sæberg sem myndað hefur fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. 

Athyglisvert er að þær Hanna Guðrún og Kristín eru enn að í Olís-deildinni nú sautján árum síðar en Hanna leikur með Stjörnunni og Kristín með HK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert