Ábyrgðin er okkar leikmanna

Ágúst Elí Björgvinsson í markinu gegn Portúgal á miðvikudaginn.
Ágúst Elí Björgvinsson í markinu gegn Portúgal á miðvikudaginn. Ljósmynd/FPA

Ágúst Elí Björgvinsson lék mjög vel í markinu fyrir íslenska landsliðið sem tapaði naumlega gegn Portúgal á útivelli á miðvikudaginn í undankeppni EM, 26:24. Ágúst varði sjö skot í síðari hálfleik, þar af nokkur úr dauðafærum. Hann segir að frammistaða liðsins hafi heilt yfir verið ágæt, en nú þurfi að byggja á henni með sigri þegar þjóðirnar mætast annað sinn á Ásvöllum á morgun.

„Frammistaðan var góð á köflum og það er nauðsynlegt að byggja á því. Það er góð stemning í hópnum og við þurfum að svara fyrir tapið á morgun,“ sagði Ágúst Elí í samtali við mbl.is á landsliðsæfingu í Hafnarfirðinum í dag. Ágúst var ásamt Viktori Gísla Hallgrímssyni í markinu á miðvikudaginn og segist hann auðvitað vona að fá að spila á morgun en Björgvin Páll Gústavsson er einnig í landsliðshópnum.

„Ég vona það, maður vill alltaf spila en þetta er líka liðsíþrótt og það þýðir ekkert að vera í fýlu á bekknum. Ég tek kallinu ef það kemur og reyni mitt besta. Ég hef verið að æfa á fullu í Danmörku og staðið mig ágætlega. Ég er ánægður að vera hérna með strákunum og í þessu verkefni.“

Þá segir Ágúst það auðvitað sérkennilegt að mæta Portúgal í þremur leikjum á stuttum tíma í þremur mismunandi löndum en þjóðirnar mætast í fyrstu umferð á heimsmeistarakeppninni í Egyptalandi á fimmtudaginn.

„Þetta er skemmtilegt á vissan hátt, ég hef ekki gert þetta áður. Það er kannski mest að gera hjá Gumma að vera í skák við hinn þjálfarann en við leikmennirnir spilum leikina og ábyrgðin er okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert