Hef ekki séð svona frá línumanni áður

Bjarki Már Elísson skýtur að marki Portúgala í kvöld.
Bjarki Már Elísson skýtur að marki Portúgala í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarki Már Elísson lék gríðarlega vel og skoraði níu mörk í afar góðum 32:23-sigri Íslands á Portúgal í undankeppni EM í handbolta á Ásvöllum í kvöld. Portúgal komst fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik, en íslenska liðinu tókst að jafna og var svo miklu sterkara í seinni hálfleik. 

„Þeir fara í sjö á sex og hleypa okkur inn í leikinn með því. Við vorum hins vegar skelfilegir til að byrja með og við þurfum að fara yfir það. Við sýndum hins vegar frábæran karakter með að koma til baka og það var mikilvægt að munurinn var bara eitt mark í hálfleik. Við náðum að snúa þessu við og vorum svo klárir í seinni og gerðum þetta frábærlega,“ sagði Bjarki. 

Í stöðunni 12:7 fyrir Portúgal skoraði Ísland fimm mörk í röð og voru fjögur af þeim í autt mark Portúgala. „Ég skil eiginlega ekki af hverju þeir voru svona lengi í sjö á sex, en við grátum það svo sannarlega ekki og förum fullir sjálfstrausts inn í verkefnið sem bíður okkar í Egyptalandi.“

Leikmenn Íslands fagna eftir frábæran sigur á Portúgal á Ásvöllum …
Leikmenn Íslands fagna eftir frábæran sigur á Portúgal á Ásvöllum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland vann seinni hálfleikinn með tíu mörkum og keyrði algjörlega yfir Portúgal. „Við vorum góðir í sókninni og svo var Gústi frábær í markinu. Við vorum með lausnir í öllu í sókninni, létum boltann vinna og ég fékk t.d. fullt af færum í horninu og aðrir voru að komast í gegn líka.“

Ekkert í hausnum á Elliða

Bjarki hrósaði Elliða Snæ Viðarssyni sérstaklega í leikslok, en alls skoruðu tólf leikmenn í íslenska liðinu og margir spiluðu mjög vel.

„Elliði er kóngurinn. Ég held það sé ekkert í hausnum á honum. Hann er ískaldur og fyrsta skotið hans í leiknum var eitthvert rugl. Ég hef ekki séð svona frá línumanni áður. Ómar var líka góður og Janus kom vel inn í seinni. Við erum með frábært lið og förum fullir sjálfstrausts út til Egyptalands.“

Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik á HM í Egyptalandi á fimmtudaginn kemur og er Bjarki kokhraustur fyrir leikinn eftir stórsigurinn í dag. 

„Við verðum að halda áfram að gera það sem við vorum að gera í seinni hálfleik og ef við náum því þá erum við með þá, sérstaklega í vörninni. Við viljum setja þá í stöður þar sem markverðirnir geta varið og við keyrt á þá í bakið. Við eigum að geta unnið þá úti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert