Ísland valtaði yfir Portúgal

Ísland vann glæsilegan 32:23-sigur á Portúgal í undankeppni EM karla í handbolta á Ásvöllum í dag. Með sigrinum fór Ísland upp í fjögur stig í 4. riðli en Portúgal, sem hefur leikið einum leik meira, er enn í toppsætinu með sex stig. Ísrael og Litháen eru án stiga. Tvö efstu liðin kom­ast beint á EM og einnig fjög­ur lið sem ná best­um ár­angri í þriðja sæti und­anriðlanna.

Portúgal byrjaði betur og þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður var staðan 6:3. Íslenska liðið var þá ekki komið með eina einustu markvörslu, illa gekk í sókninni og vörnin var lek. Bjarki Már Elísson skoraði tvö af þremur fyrstu mörkunum og var ljós punktur í annars erfiðri byrjun. Guðmundur Guðmundsson tók þá leikhlé.

Það hafði ekki sérstaklega góð áhrif því Portúgal hélt áfram að bæta í forskotið og var staðan 12:7 þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik.

Þá kom ótrúlegur kafli hjá íslenska liðinu sem skoraði fimm mörk í röð og voru fjögur fyrstu öll í autt mark Portúgals sem tók áhættu með að spila ekki með markvörð í sóknum sínum. Portúgal skoraði hins vegar síðasta mark fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi 13:12, Portúgal í vil.

Ísland byrjaði vel í seinni hálfleik og komst snemma í 14:13 og var það í fyrsta skipti síðan í stöðunni 1:0 sem Ísland var með forystu. Íslenska liðið hélt áfram að spila góða vörn og sóknin gekk vel hinum megin og var staðan 18:15 þegar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Munurinn varð í fyrsta skipti fjögur mörk Íslandi í vil í stöðunni 21:17 þegar seinni hálfleikur var rétt tæplega hálfnaður og skömmu síðar var staðan 22:17.

Ísland hélt áfram að bæta í og var munurinn orðinn átta mörk þegar skammt var eftir, 27:19 og síðan 30:20. Að lokum munaði níu mörkum á liðunum og góður íslenskur sigur varð raunin. 

Var leikurinn annar af þremur leikjum liðanna í þremur mismunandi löndum á tíu dögum en liðin mættust fyrst á miðvikudaginn var og eigast síðan við í fyrsta leik á HM í Egyptalandi á fimmtudaginn kemur.

Bjarki Már Elísson átti stórleik og skoraði níu mörk, Elvar Örn Jónsson fimm og þeir Ómar Ingi Magnússon, Arnór Þór Gunnarsson og Elliði Snær Viðarsson gerðu þrjú mörk hver. Ágúst Elí Björgvinsson lék glæsilega í markinu og varði tíu skot, þar af eitt víti og var með um 50 prósenta markvörslu. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 32:23 Portúgal opna loka
60. mín. Fábio Magalhaes (Portúgal) skýtur yfir Í gólfið og yfir.
mbl.is