Mun taka tíma að koma öxlinni í gang

Stella Sigurðardóttir í leik með Fram.
Stella Sigurðardóttir í leik með Fram. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stella Sigurðardóttir, fyrrverandi landsliðskona í handknattleik, segist ekki gera sér neinar væntingar um að leika stórt hlutverk í liði Fram í vetur en ef til vill verði hægt að nýta hana í vörn liðsins með tímanum.

Fram tilkynnti í dag að Stella hefði væri aftur orðin leikmaður Fram eftir sjö ára hlé frá boltanum. 

Stella segir að Stefán Arnarson, þjálfari Fram, hafi sett sig í samband við hana í sumar til að athuga hvort hún hefði áhuga á að æfa með liðinu og athuga hvort áhuginn myndi kvikna á ný.

„Ég ætla aðallega að mæta á æfingar með vinkonum mínum og hafa gaman að þessu. Ég er ekki með neinar væntingar og það setur enginn pressu á mig varðandi þetta. Við skulum sjá hvernig þetta þróast. Stebbi hringdi í mig síðasta sumar og spurði hvort ég hefði áhuga. Hann bauð mér að prófa að mæta stöku sinnum í ágúst og auka við það ef ég hefði gaman af. Ég mætti nokkrum sinnum í ágúst og september en ekki af neinni alvöru. Ég er með tvö börn, er í mastersnámi og maðurinn minn líka á fullu í handboltanum [Tandri Már Konráðsson í Stjörnunni]. Ég gaf mér ekki mikinn tíma í þetta til að byrja með. Svo stoppaði allt út af veirunni og þegar komið var fram í desember þá fann ég að mig langaði að fara að æfa. Ég reyndi að mæta alla vega tvisvar í viku í desember og hef gert síðan. Í vikunni var ég spurð um hvort ég vildi láta reyna á að vera með en Framarar vita að ég mun ekki geta mætt á hverja einustu æfingu. Ég er ekki atvinnumaður eins og þegar maður var ungur leikmaður í Fram og hafði ekkert betra að gera en að æfa. Ég mun reyna að hjálpa liðinu hvernig sem það verður. Það kemur í ljós hvort það verði með því að æfa með þeim, vera á bekknum eða taka þátt í leikjunum. Það mun kannski velta á því hvernig staðan verður á leikmannahópnum og ég get þá verið til taks ef á þarf að halda,“ sagði Stella þegar mbl.is bar þetta undir hana í dag. 

Stella var í lykilhlutverki bæði í vörn og sókn hjá Fram á sínum tíma og einnig í landsliðinu. Skiljanlegt er hins vegar að hún sé varkár í yfirlýsingum þar sem sjö ár eru liðin frá því hún lét staðar númið og var þá leikmaður með SønderjyskE. Stella lék jafnan í skyttustöðunni í sókn. Spurð um hvort hún drífi á markið eftir sjö ára fjarveru segist hún reikna með því að eiga meira erindi í vörnina en sóknina, alla vega fyrst um sinn. 

„Það verður þá að vera frá sex metrunum. Við sjáum svo hvort ég nái að vinna mig upp í að skjóta lengra frá. Það er langt síðan ég hef kastað bolta og það tekur örugglega tíma að koma öxlinni í gang. Í janúar eru sjö ár síðan ég spilaði síðast og það er ansi langur tími. Ég kem ekki til með að vera eins leikmaður og ég var áður en ég fór utan þegar ég var 22 ára. Ég verð ekki nein stórskytta og verð líklega frekar í einhvers konar varnarhlutverki,“ sagði Stella Sigurðardóttir í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert