Gagnrýni Guðmundar sorgleg

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, á hliðarlínunni gegn Noregi í dag.
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, á hliðarlínunni gegn Noregi í dag. AFP

„Ég er hissa á Gumma. Ég er hissa á þessum viðbrögðum og finnst þetta í raun og veru sorglegt,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik á RÚV fyrir landsleik Íslands og Noregs á HM í handknattleik í dag og var hann þar að vísa til viðtals við Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara eftir leikinn gegn Frökkum á föstudaginn.

Guðmundur varði lið sitt af miklum eldmóði eftir tapið gegn Frökkum og lét sérfræðinga RÚV á mótinu, þá Arnar Pétursson og Loga Geirsson heyra það. „Það er al­gjör­lega hræðilegt að horfa á og heyra hvernig sér­fræðing­ar RÚV tjá sig um þetta á niðrandi hátt. Þeir tala um eft­ir leik­inn á móti Sviss að liðið sé ráðalaust sem eru mjög niðrandi um­mæli sem hafa farið mjög illa í hóp­inn og mig. Mér finnst þetta ekki eiga rétt á sér,“ sagði Guðmund­ur meðal annars í viðtalinu.

„Það er alveg eðlilegt að við höfum gagnrýnt sóknarleikinn á móti Sviss. Við skorum 18 mörk á móti liði sem er að keppa á sínu fyrsta stórmóti í 25 ár. Ef að það var ekki tilefni til að gagnrýna sóknarleikinn gegn Sviss þá veit ég ekki hvað má gagnrýna,“ bætti Arnar við á RÚV í dag og tók Logi í sama strengt.

„Guðmundur er bara svekktur. Þetta heimsmeistaramót hefur ekki verið gott. Hann sagðist fyrir þremur árum ætla að byggja upp lið og koma okkur í fremstu röð og það hefur ekki  verið að ganga,“ sagði Logi sem spilaði auðvitað á sínum tíma undir stjórn Guðmundar með íslenska landsliðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina