Eyjamenn höfðu betur gegn ótrúlegum Lárusi

Stefán Darri Þórsson fær rautt spjald í leiknum í dag.
Stefán Darri Þórsson fær rautt spjald í leiknum í dag. Sigfús Gunnar Guðmundsson

Eyjamenn unnu 19:17 sigur á Frömurum í Olísdeild karla í dag er liðin mættust í 5. umferð. Lárus Helgi Ólafsson var maður leiksins en hann varði 27 skot af þeim 46 sem rötuðu á markið hans. Mögnuð frammistaða, en þrátt fyrir það voru Framarar ekki líklegir til að vinna sér inn stig.

Eyjamenn fóru betur af stað og voru yfir allan fyrri hálfleikinn, sóknarleikur liðsins var mjög góður og vörnin enn betri. Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Framara var þó langbesti leikmaður fyrri hálfleiks. Hann varði 14 af þeim 25 skotum sem Eyjamenn hittu á markið. Petar Jokanovic var einnig góður í marki heimamanna en hann varði 7 af þeim 14 skotum sem rötuðu á mark Eyjamanna.

Lárus varði mörg skot úr dauðafærum þar sem Eyjamönnum hafði tekist að galopna vörn gestanna, útlitið hefði verið mjög slæmt og leiknum nánast lokið ef Lárus hefði ekki átt þennan frábæra fyrri hálfleik.

Stefán Darri Þórsson fékk rautt spjald eftir rúmar tíu mínútur, þar virtist hann ætla að ganga full vasklega fram til að fá ruðning á Hákon Daða Styrmisson sem hugðist komast fram hjá Stefáni. Í leiðinni fór Stefán með hönd í andlit Hákons og úr varð mikill árekstur.

Staðan var 11:7 í hálfleik og leikurinn galopinn, augljóst var samt að Framarar þurftu að bæta sóknarleikinn mun mikið ef þeir ætluðu að eiga minnsta möguleika að ná einhverju úr leiknum.

Lárus byrjaði seinni hálfleikinn líka frábærlega og var með samtals 18 skot varin þegar staðan var 12:10. Eyjamenn tóku þá góðan kafla og fengu ekki á sig mark í 12 mínútur á meðan þeir skoruðu fjögur.

Framarar rönkuðu við sér í smá stund og minnkuðu muninn í 16:12. Þá var Lárus kominn með 24 varða bolta og var í 60% vörslu, sem er alveg ótrúlegt, þvílíkur leikur hjá Lárusi. Framarar náðu muninum niður í þrjú mörk, 17:14 og þannig var staðan þegar sjö mínútur voru eftir. Sebastian Alexandersson tók þá leikhlé og lagði upp sóknarleikinn fyrir lokakaflann.

Eyjamenn voru sterkari á lokakaflanum og náðu að vinna sigur að lokum 19:17 en hann var ekki í mikilli hættu.

Sveinn José Rivera sækir að marki Fram.
Sveinn José Rivera sækir að marki Fram. Sigfús Gunnar Guðmundsson
Framarar taka leikhlé.
Framarar taka leikhlé. Sigfús Gunnar Guðmundsson
ÍBV 19:17 Fram opna loka
60. mín. Petar Jokanovic (ÍBV) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert