Kærkomið að spila en vantaði áhorfendurna

Lárus Helgi Ólafsson (lengst t.h.) býr sig undir að verja …
Lárus Helgi Ólafsson (lengst t.h.) býr sig undir að verja eitt af 27 skotum sem hann varði í leiknum í dag. Sigfús Gunnar Guðmundsson

Lárus Helgi Ólafsson átti hreint magnaðan leik þegar Eyjamenn tóku á móti Frömurum í fyrsta leik Olísdeildar karla eftir langa pásu. Lárus varði 27 skot í marki Framara sem dugðu þó skammt þar sem Framarar skoruðu einungis sautján mörk gegn sterkri vörn Eyjamanna.

„Númer eitt og tvö var það sóknarleikurinn sem klikkaði í dag, við vorum of staðir og þetta var allt of hægt og stirt hjá okkur. Ég tek þó ekkert af ÍBV sem spiluðu sína flottu vörn, það er svekkelsi að þetta hafi ekki gengið upp sóknarlega hjá okkur í dag,“ sagði Lárus eftir leikinn þegar hann var spurður um það hvað hefði farið úrskeiðis.

„Þetta var kannski taktleysi í sókninni, slæma byrjunin gæti hafa sjokkerað okkur. Við vorum alveg búnir að búa okkur undir ÍBV-vörnina undanfarnar tvær til þrjá vikur, við áttum alla vega að eiga svör. Það vantaði kannski að fara eftir leikplaninu.“

Vörn Framara opnaðist mjög oft illa og fengu Eyjamenn gríðarlegan fjölda af dauðafærum, mörg þeirra varði Lárus með glæsibrag.

„Mér fannst vörnin heilt yfir rosalega góð í öllum leiknum, þetta er þannig vörn að þegar hún opnast þá opnast hún illa, heilt yfir var vörnin flott og það er það jákvæða sem við tökum úr þessum leik,“ sagði Lárus en Framarar taka eflaust einnig magnaða frammistöðu Lárusar úr þessum leik.

Lárus hefur greinilega verið duglegur í pásunni og þetta er vonandi það sem koma skal frá honum í deildinni.

„Það er gott að komast aftur á gólfið, ég held að ég hafi spilað sex leiki á síðasta ári og ég ætla að spila fleiri núna. Það var kærkomið að koma og spila, mér fannst þó vanta áhorfendurna því það er alltaf gaman að koma hingað og hafa allt vitlaust á móti manni. Annars var þetta rosalega gaman.“

„Við höfum æft vel í pásunni eins og allir aðrir, það eru eflaust flestir að fara eftir svipuðu skipulagi. Við höfum verið að lenda í meiðslum, ég veit ekki hvort það hafi verið út af þessari pásu eða hvort þetta sé bara óheppni,“ sagði Lárus en framhaldið leggst vel í hann.

„Mér líst rosalega vel á þetta, mér finnst liðið okkar vera vel mannað. ÍBV var án Kára í dag sem er úti og þá vantar nokkra menn sem eru í meiðslum. Ég ætlaði alltaf að koma hingað og sækja tvo punkta, mér finnst okkar lið sterkara á pappír heldur en ÍBV í dag. Það er því mjög svekkjandi að taka ekkert með heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert