Sóknarleikur sem hefur ekki sést síðan 1982

Úr leiknum í dag. Frömurum gekk illa í sókn gegn …
Úr leiknum í dag. Frömurum gekk illa í sókn gegn ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Framarar fóru í fýluferð til Vestmannaeyja er liðið skoraði einungis 17 mörk í heilum handboltaleik í dag. Þeir fengu þó einungis á sig 19 en liðið spilaði arfaslakan sóknarleik. Sebastian Alexandersson, þjálfari Framara, getur þakkað markverði sínum, Lárusi Helga Ólafssyni, fyrir að ekki fór verr.

„Það er alveg 100% að sóknarleikurinn fór með þetta, við höfum verið í vandræðum með sóknarleikinn en höfum daðrað við 25 mörkin, þetta er náttúrulega eitthvað sem hefur ekki sést síðan 1982 eða eitthvað. Við erum sjálfum okkur verstir, við náum engu flæði í sóknarleikinn, það var ekki af því að vörnin hjá þeim var svo stórkostleg,“ sagði Sebastian en hann segir öll lið deildarinnar geta spilað svona vörn.

„Þetta er góð vörn sem hvert einasta lið í deildinni nær að spila, við vorum bara ekki með. Við vorum staðir, hreyfingarlausir, engar alvöruárásir, náðum engum rytma saman. Það var sama hvaða uppstillingu ég prófaði, það náðist ekkert. Við vonum að þetta hafi bara verið byrjunar eitthvað og að þetta ýti við mönnum. Við verðum sterkari í næsta leik.“

Vörn Framara var þó mun sterkari en sóknin að mati Sebastians.

„Það segir sig sjálft, við fengum bara á okkur 19 mörk og fengum góða markvörslu. Eina sem ég hefði getað beðið um væri að við hefðum tekið fleiri fráköst,“ sagði Sebastian en Eyjamenn tóku mikið af fráköstum eftir vörslur Lárusar og einhverjir boltar rötuðu í innkast og þar af leiðandi til Eyjamanna.

Eyjamenn náðu hátt í 50 skotum á mark Framara á meðan einungis 29 skot gestanna rötuðu á mark Eyjamanna, það er gríðarlega mikill munur.

„Það segir okkur bara það hvernig við vorum að spila sóknarleikinn, allir að drippla, allir hægir, engar árásir, engin ákefð, ekkert hugrekki. Það er ekkert flókið að vera í vörn þegar andstæðingurinn þorir ekki að sækja á markið,“ sagði Sebastian.

Lárus Helgi talaði um í viðtali að Fram-liðið væri sterkara á pappírnum en lið ÍBV í dag, er Sebastian sammála því?

„Skiptir það einhverju máli hvernig liðin eru mönnuð? Þetta snýst bara um það hvernig þú spilar, það þarf ekki annað en að horfa á HM eða aðra handboltaleiki til að átta sig á því að mannskapurinn er ekki alltaf aðalatriðið. Ég ætla ekkert að leggja dóm á það hvort liðið er betur mannað, staðreyndin er bara sú að við vorum ekki að spila sóknarleik eins og við erum vanir að gera. Þetta er svo sannarlega ekki það sem við erum að æfa.“

Er eitthvað strax eftir leikinn sem Sebastian hefði viljað breyta inni í leiknum?

„Ég hefði viljað að við næðum að keyra upp hraðann, vegna þess að við hefðum ekki tapað neinu á því. Þegar við vorum að fá hraðaupphlaupsstöður vorum við hikandi, þetta er eitthvað sem við verðum að ýta frá okkur. Við erum að mæta líklega hraðasta liði landsins á fimmtudaginn, það er eins gott að við verðum þá tilbúnir í það. Á móti þessu liði hefði hentað að spila hraðar, en það er ekki þannig sagt að það henti á fimmtudaginn.“

Hvernig sér Sebastian framhaldið með þann leikmannahóp sem hann er með?

„Matthías á von á barni og við leyfðum honum að einbeita sér að því, Aron Gauti er nýbúinn í aðgerð á hné og Elías er að fara í aðgerð á mánudaginn. Það vantar vissulega hjá okkur, við erum núna bara með einn örvhentan, Arnar Snæ, sem er að spila meiddur og harkar það mikið af sér. Við erum búnir að reyna að finna leiðir til að leysa það. Þetta er fyrsti leikur eftir ævintýralega langt stopp, maður veit ekkert hvað maður fær í fyrstu leikjunum. Við munum örugglega þurfa 2-4 leiki til að komast aftur í þann rytma sem við viljum vera í,“ sagði Sebastian en hann segir markmið liðsins vera skýr.

„Ég hef sagt það síðan fyrir tímabilið að við verðum að komast í 8-liða úrslit, okkur er sama í hvaða sæti það er, ég myndi glaður taka áttunda sætið.“

mbl.is