Jafnt í toppslagnum á Hlíðarenda

Lovísa Thompson sækir að Akureyringum á Hlíðarenda í kvöld.
Lovísa Thompson sækir að Akureyringum á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur og KA/Þór skildu jöfn, 23:23, í hörkuspennandi toppslag í Olísdeild kvenna í handknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Allt var í járnum allan leikinn og ekkert gefið eftir. Valur heldur þar með toppsætinu í deildinni.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á að skora, auk þess sem bæði Saga Sif Gísladóttir í marki Vals og Matea Lonac í marki KA/Þórs skiptust á að verja skot. Eftir að hafa verið 5:6 undir bættu Valsstúlkur aðeins í og skoruðu næstu þrjú mörk og staðan því orðin 8:6. Valsstúlkur náðu að halda í tveggja marka forystuna um skeið og komust í 11:9 en þá tóku norðanstúlkur við sér á mikilvægum tímapunkti og skoruðu næstu tvö mörk. Staðan því í hálfleik jöfn, 11:11.

Í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum. Ef annað liðið náði forystu jafnaði hitt jafnharðan. Allt var í járnum allt til enda leiks. Valsstúlkur komust yfir, 23:22, þegar 40 sekúndur voru eftir en norðanstúlkur náðu að jafna metin í næstu sókn, 23:23. Valsstúlkur fengu eitt tækifæri til viðbótar en dæmt var á Lovísu Thompson fyrir sóknarbrot og flautað til leiksloka. Toppslagurinn endaði því með jafntefli sem verður að teljast sanngjörn úrslit.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir var markahæst í leiknum með 9 mörk fyrir KA/Þór, þar af 6 úr vítaskotum. Lovísa Thompson var sömuleiðis öflug í liði Vals og skoraði 8 af mörkum Vals, auk þess sem hún var afar sterk í vörninni.

Það var í raun saga þessa leiks. Góð vörn hjá báðum liðum var í aðalhlutverki en sóknarleikurinn var ekki upp á sitt besta heilt yfir. Leikurinn var þó hin besta skemmtun og æsispennandi allan tímann.

Sem áður segir heldur Valur toppsætinu og er nú með 9 stig eftir sex leiki. KA/Þór er áfram í 3. sæti deildarinnar, með 8 stig eftir sex leiki. Fram er í 2. sæti með 8 stig en hefur aðeins leikið fimm leiki.

Valur 23:23 KA/Þór opna loka
60. mín. Lovísa Thompson (Valur) skoraði mark Skorar í tómt markið og 40 sekúndur eftir!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert