Haukar börðu allan kjark úr Selfyssingum

Tryggvi Þórisson reynir skot að marki Hauka í kvöld.
Tryggvi Þórisson reynir skot að marki Hauka í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Björgvin Páll Gústafsson var besti leikmaður Hauka þegar liðið fékk Selfoss í heimsókn í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, að Ásvöllum í Hafnarfirði í tíundu umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 25:20-sigri Hauka en Björgvin Páll varði 18 skot í leiknum, þar af eitt vítakast.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og skiptust liðin á að skora.

Þráinn Orri Jónsson kom Haukum tveimur mörkum yfir þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Alexander Már Egan minnkaði muninn í eitt mark en Ólafur Ægir Ólafsson skoraði síðasta mark seinni hálfleiks og Haukar leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 11:9.

Hafnfirðingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og Orri Freyr Þorkelsson kom þeim fimm mörkum yfir eftir tæplega átta mínútna leik.

Selfyssingum tókst nokkrum sinnum að minnka muninn í þrjú mörk en þegar að þeir fengu tækifæri til þess að minnka muninn enn frekar köstuðu þeir boltanum frá sér eða töpuðu honum klaufalega.

Darri Aronsson gerði út um leikinn þegar fimm mínútur voru til leiksloka þegar hann kom Haukum sex mörkum yfir og leikurinn fjaraði út eftir það.

Haukar endurheimtu toppsætið með sigrinum og eru með 15 stig í efsta sæti deildarinnar eftir níu leiki.

Selfyssingar eru hins vegar áfram í fjórða sætinu með 11 stig eftir níu spilaða leiki. 

Brotnir Selfyssingar

Haukar voru með frumkvæðið allan leikinn, þrátt fyrir að Selfyssingum hafi tekist að hanga í þeim í fyrri hálfleik.

Þegar út í seinni hálfleikinn var komið tóku Hafnfirðingar fastar á Selfyssingum í varnarleiknum með þeim afleiðingum að þeir urðu brotnir og bognir.

Þá nýttu þeir færin sín með Björgvin Pál Gústafsson fremstan í flokki í markinu og sigurinn var í raun aldrei í hættu.

Selfyssingar voru aldrei nægilega sannfærandi í sínum leik í kvöld til þess að vinna leikinn.

Þeir fóru illa með allt of mörg dauðafæri og köstuðu boltanum frá sér í hvert einasta skipti sem þeir fengu færi til þess að minnka forskot Hauka í tvö mörk í síðari hálfleik.

Haukalestin heldur áfram að malla og breiddin í liðinu er í raun ógnvænleg fyrr önnur lið.

Haukar spiluðu í sama gír allan leikinn, hreyfðu vel við liðinu, og sigldu bara hægt og rólega fram úr án þess að Selfyssingar kæmu vörnum við.

Selfossliðið er efnilegt en þeir eru of mikið jójó enn sem komið er til þess að ætla sér að gera atlögu að einhverjum titlum.

Haukar 25:20 Selfoss opna loka
60. mín. Selfoss tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert