Vantar smá traust á milli leikmanna

Guðmundur Hólmar Helgason sækir að Hafnfirðingum í kvöld.
Guðmundur Hólmar Helgason sækir að Hafnfirðingum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er mjög fúll og sár,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason, leikmaður Selfoss, í samtali við mbl.is eftir 25:20-tap liðsins gegn Haukum í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í tíundu umferð deildarinnar í kvöld.

„Stemningslega séð var fyrri hálfleikurinn mjög góður en það gefur augaleið að sóknarleikurinn var ekki góður þar sem við skorum bara tuttugu mörk. Við fórum illa með færin okkar og Bjöggi var okkur erfiður.

Við fundum ekki lausnir á Haukavörninni í kvöld og gerðum okkur erfitt fyrir. Við vorum að tapa of mikið af boltum sem gaf þeim mjög auðveld mörk úr hraðaupphlaupum og á endanum var það það sem fór með leikinn,“ bætti Guðmundur við.

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, ræðir við Sigurð Hjört Þrastarson, …
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, ræðir við Sigurð Hjört Þrastarson, annan dómara leiksins, í Hafnarfirðinum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fúlir í kvöld

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Hafnfirðingar voru mun sterkari í síðari hálfleik.

„Það er erfitt að segja hvað veldur því að við náum ekki upp neinum takti í seinni hálfleik. Við erum ekki alveg nægilega vel innstilltir og féllum einhvern veginn í allar þær gildrur sem þeir lögðu upp með.

Við vorum að fara í hlaupaleiðirnir sem þeir beindi okkur í og enduðum á stóru þristunum þeirra. Mér fannst allir gefa sitt í leikinn en það vantaði eitthvað. Við erum samt sem áður enn þá bara í fyrstu umferðinni, það er þétt spilað og við erum fúlir í kvöld en svo er bara hausinn upp og næsti leikur.

Haukar eru með best mannaða liðið í deildinni en við ætluðum okkur að koma hingað og sækja tvö stig en það gekk því miður ekki eftir.“

Eftir góða byrjun á mótinu hafa Selfyssingar nú tapað tveimur leikjum í röð.

„Það var margt gott í okkar leik og við þurfum aðeins að tímastilla klippingarnar betur og sendingarnar. Það vantar smá traust á milli leikmanna en það kemur með æfingunni og það eina sem við getum gert er að fara aftur á teikniborðið.

Það er fullt af jákvæðum hlutum sem við getum byggt ofan á úr þessum leik og við munum gera það,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is.

mbl.is