Frábær þessi varnartröll

Halldór Örn Tryggvason þjálfar Þór.
Halldór Örn Tryggvason þjálfar Þór. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ég er bara drullusvekktur, númer eitt tvö og þrjú,“ sagði Halldór Örn Tryggvason þjálfari Þórs eftir 21:19-tap gegn erkifjendunum í KA í 11. umferð Olísdeildar karla í handbolta nú fyrr í dag.

Hvernig fannst þér spilamennska þíns liðs?

„Miklu betri en í síðasta leik og ég er ánægður með það. Mér fannst við eiga aðeins meira inni en allt í lagi svo sem.“

Varnarleikur liðsins í dag gekk vel en eins og svo oft áður er það sóknarleikur liðsins sem er ekki nógu góður. Aðspurður sagði Halldór:

„Við erum að reyna að vinna með þetta og laga. Það er erfitt að vinna í því þegar það er stutt á milli leikja. Við erum að rúlla mannskapnum og það eru nýir menn að koma inn þannig að við erum alltaf að reyna að púsla einhverju nýju saman. En við fáum viku núna og ég vona að hún nýtist vel.“

Ingimundur Ingimundarson spilaði frábærlega í dag og virðist engu hafa gleymt í varnarleik þrátt fyrir að hafa lítið spilað undanfarin ár. Spurður um hans framlag sagði Halldór:

„Þeir eru allir frábærir þessi varnartröll okkar en Ingimundur hefur gríðarlega reynslu og karakter og gefur mikið inn í liðið. Það er gríðarlega gott að hafa hann og ég er mjög ánægður með hann.“

Valþór Atli, sem hefur verið að glíma við meiðsli á öxl, virtist meiðast illa þegar hann tók skot seint í leiknum. Er vitað hversu alvarleg meiðslin eru?

Nei, í raun ekki. Hann fór upp eftir á slysadeildina og ég held því miður að hann hafi farið úr axlarlið og þá er þetta bara búið fyrir hann í deildinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert