Jafnt í Safamýri eftir háspennu

Fram og Stjarnan skildu jöfn í spennandi leik.
Fram og Stjarnan skildu jöfn í spennandi leik. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Fram og Stjarnan skildu jöfn, 29:29, í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Stefán Darri Þórsson tryggði Fram jafntefli með marki í blálokin. 

Framarar voru yfir framan af leik og var staðan eftir tíu mínútur 8:5 og þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður 12:6. Að lokum munaði fjórum mörkum á liðunum í hálfleik, 18:14. 

Stjarnan jafnaði snemma í seinni hálfleik 21:21, en í kjölfarið náði Fram aftur undirtökunum og komst í 27:24.

Stjarnan neitaði hins vegar að gefast upp og Tandri Már Konráðsson kom Stjörnunni í 29:28 þegar skammt var eftir. Framarar nýttu lokasóknina afar vel og Stefán Darri jafnaði örfáum sekúndum fyrir leikslok. 

Vilhelm Poulsen skoraði átta mörk fyrir Fram og Stefán Darri sex. Starri Friðriksson skoraði átta fyrir Stjörnuna og Tandri Már gerði sex mörk. 

Stjarnan er í fimmta sæti deildarinnar með tólf stig og Fram í níunda sæti með tíu stig. 

mbl.is