Spurning um að vera með kaldari haus

Jónatan Ingi Magnússon er þjálfari KA.
Jónatan Ingi Magnússon er þjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Bara ánægður með niðurstöðuna,“ sagði Jónatan Magnússon þjálfari KA spurður um fyrstu viðbrögð eftir 21:19-sigur gegn Þór í 11. umferð Olísdeildar karla nú í dag. „Þetta er svipað og ég sagði eftir síðasta sigur, bara gott að vinna. Við vissum að þetta yrði hörkuleikur.

Ætluðum að hafa leikinn hraðari en mér fannst við ekki ná því. Við náðum ekki upp neinum hraða en þetta datt niður enda þriðji leikur liðanna í vikunni. Þá varð þetta spurning um það að vera með kaldari haus en hitt liðið og við gerðum það.“

KA-liðið fékk mikið af brottvísunum á sig í fyrri hálfleiknum sem hafði áhrif á leik þess. Aðspurður um það sagði Jónatan:

„Þær voru allt of margar. Fimm á móti einni, sem litaði fyrri hálfleikinn okkar mikið. Við vorum mikið í undirtölu í sókn, að reyna að verja boltann, og þess vegna náðum við kannski ekki upp meiri hraða. Við fengum of mikið af brottvísunum og við þurfum að skoða það.

Það þarf ekki að undirbúa menn sérstaklega í þessa nágrannaslagi, en við komum frekar flatir inn í þennan leik og bikarleikinn. Við höfum bara lært það á tímabilinu að það er mikil trú í liðinu. Þótt við séum ekki að spila okkar besta leik og menn ekki að eiga sinn besta dag, þá missum við ekki leikina frá okkur þrátt fyrir að kaflarnir séu lélegir og ég er ánægður með það.“

mbl.is