Aldrei rólegur eftir að við köstuðum sigri frá okkur fyrir norðan

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Eggert Jóhannesson

„Ég er náttúrulega bara mjög ánægður, þetta var virkilega fagmannlega gert hjá strákunum. Þeir spiluðu hörkuleik og fyrri hálfleikurinn var frábær og við leggjum þar grunninn að góðum sigri. Ég ætla ekki að segja að þá hafi þetta þannig séð verið í höfn. Við köstuðum leiknum frá okkur fyrir norðan um daginn þannig að ég var nú aldrei rólegur, en þetta var góður sigur.“

Þetta sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir öruggan 30:21-sigur liðsins gegn Aftureldingu í 11. umferð Olísdeildarinnar í kvöld. Leikurinn fyrir norðan sem Snorri Steinn vísar til var jafntefli gegn KA í 10. umferð, þar sem Valur glutraði niður sex marka forskoti á síðustu fimm mínútum þess leiks.

Í leiknum í kvöld voru Valsmenn áfjáðir í að láta ekkert slíkt gerast og gáfu gestunum engin grið með því að byrja leikinn af feiknarlegum krafti. Valur var enda með 11 marka forystu, 21:10, í hálfleik og grunnurinn þar með lagður að sigrinum. „Við erum búnir að vinna í þessu í svolítinn tíma. Upphafið á þessu móti eftir þessa Covid-pásu var máttlaust hjá okkur. Það vantaði neista og kraft í okkur og við höfum verið að vinna í því.

Ég sá þessa hluti klárlega fyrir norðan. Mér fannst sá leikur góður hjá okkur og fannst þetta bara nokkuð rökrétt framhald af þeim leik. Auðvitað voru strákarnir sárir og reiðir eftir hann en mér fannst þeir nýta þá orku vel og þeir komu virkilega vel inn í þennan leik. Þetta er svona töluvert nær því sem við stöndum fyrir heldur en þessir fyrstu leikir eftir pásuna,“ sagði hann.

Þrátt fyrir þennan góða sigur, sem kom Val upp í 3. sæti deildarinnar, sagði Snorri Steinn enn nægilegt svigrúm til bætinga hjá liðinu. „Þetta gefur okkur sjálfstraust og byr undir báða vængi. En við getum ekkert farið fram úr okkur. Við erum ekki enn þá með nægilega marga sigra úr þessari fyrri umferð og getum ekkert verið ánægðir með stigasöfnunina.

Við verðum bara að halda áfram og getum ekki verið að velta töflunni of mikið fyrir okkur, hvort við séum í öðru, þriðja, fjórða, sjötta eða hvað það er. Við þurfum að bæta okkar leik og þótt við höfum unnið hérna í kvöld þá er ekkert í höfn. Strákarnir mega klárlega njóta sigursins í kvöld, það hefur vantað upp á sigrana en svo þurfum við bara að undirbúa næsta leik,“ sagði Snorri Steinn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert