Óvænt úrslit á Selfossi

Birgir Steinn Jónsson var markahæstur hjá Gróttu í kvöld.
Birgir Steinn Jónsson var markahæstur hjá Gróttu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grótta vann frábæran sigur á Selfyssingum í Olísdeild karla í handknattleik á Selfossi í kvöld. Lokatölur urðu 20:26.

Gróttumenn léku mjög vel allan leikinn. Vörnin var hreyfanleg og þétt og í sókninni voru menn óhræddir við að skjóta. Þar bar mest á Birgi Steini Jónssyni sem skoraði nokkur glæsileg mörk í fyrri hálfleik og sömuleiðis var Daníel Örn Griffin óhræddur við að ráðast á Selfossvörnina.

Selfyssingum gekk hins vegar illa að ráða við 5-1 vörn Gróttu. Sóknarleikurinn var staður og hægur og þeir vínrauðu virtust alls ekki í vígahug. Guðmundur Hólmar var öflugur í sókninni hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik en Ragnar Jóhannsson var í stífri gæslu og komst ekki á blað.

Staðan var 11:14 í hálfleik og Gróttumenn héldu sínu striki í seinni hálfleik á meðan Selfyssingar fundu aldrei taktinn. Birgir Steinn fékk aldrei flugbrautina sem hann þurfti í seinni hálfleik en Daníel Örn hélt áfram árásum sínum og sömuleiðis opnaðist fyrir Gunnar Dan á línunni. 

Selfoss er nú með 11 stig eftir tíu leiki og Grótta er með 9 stig eftir ellefu leiki. 

Besti maður Gróttu var þó markvörðurinn Stefán Huldar Stefánsson sem varði 21 skot í leiknum, þar af þrjú vítaköst.

Hjá heimamönnum var Hergeir Grímsson markahæstur með 5/2 mörk og Alexander Egan og Guðmundur Hólmar skoruðu 4. Vilius Rasimas varði 13 skot í marki Selfoss. 

Birgir Steinn skoraði 8 mörk fyrir Gróttu og Daníel Örn 7.

Ragnar Jóhannsson hefur reynst Selfyssingum góður liðsauki.
Ragnar Jóhannsson hefur reynst Selfyssingum góður liðsauki. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Selfoss 20:26 Grótta opna loka
60. mín. Andri Þór Helgason (Grótta) á skot í slá
mbl.is