„Við vorum bara ekki tilbúnir í neitt“

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar. Eggert Jóhannesson

Gunnar Magnússon, þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik, gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir 21:30 tap gegn Val í Olísdeildinni í kvöld. Eftir að hafa verið 11 mörkum undir í hálfleik var skaðinn þegar skeður og náðu Mosfellingar aðeins að minnka muninn niður í níu mörk áður en yfir lauk.

„Það voru mikil vonbrigði hvernig við mættum til leiks. Fyrri hálfleikurinn var hræðilegur. Það gekk ekkert upp, sama hvar litið er á hluta leiksins. Við vorum bara engan veginn tilbúnir í slaginn.

Við vissum að Valsmenn kæmu dýrvitlausir í þennan leik enda í krísu og annað og við ætluðum að mæta þeim af fullum krafti. En því miður vorum við engan veginn tilbúnir þegar leikurinn byrjaði,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurður um hvað hafi farið úrskeiðis hjá liðinu sagði hann: „Andlegur undirbúningur var bara ekki í lagi hjá okkur. Við vorum ekki klárir í þetta andlega.

Við vorum að tala um hvort við ættum að spila Júgga eða einhverja aðra taktík eða spila einhverja vörn en við vorum bara ekki tilbúnir í neitt. Það gekk ekkert upp og við vorum ekki tilbúnir í baráttuna sem var í leiknum í fyrri hálfleik.“

Gunnar sagði ljóst hvað lærisveinar hans þyrftu að gera í framhaldinu. „Við þurfum auðvitað bara að læra af þessu. Þetta eru náttúrulega margir ungir strákar sem eru að spila sína fyrstu leiki á ferlinum.

Við þurfum að mæta tilbúnir. Við þurfum að vera betur undirbúnir andlega í þetta og sjá til þess að þetta komi ekki fyrir aftur.“

mbl.is