Gísli drjúgur í leik Íslendingaliða í Evrópudeildinni

Gísli Þorgeir Kristjánsson gaf fimm sendingar sem gáfu mörk hjá …
Gísli Þorgeir Kristjánsson gaf fimm sendingar sem gáfu mörk hjá Magdeburg. AFP

Nokkrir íslenskir landsliðsmenn í handknattleik voru á ferðinni í Evrópuleikjum í dag og mættust tvö Íslendingalið í Evrópudeildinni. 

Magdeburg tók þá á móti sænska liðinu Alingsås í Þýskalandi og hafði betur 36:21. Gísli Þorgeir Kristjánsson gaf fimm stoðsendingar á samherjana og skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg en Ómari Ingi Magnússon skoraði einnig 2 mörk.  Þótt sænska liðið hafi tapað stórt þá gekk Aron Degi Pálssyni ágætlega en hann skoraði 3 mörk og gaf tvær stoðsendingar.  Magdeburg er þegar komið í sextán liða úrslit en möguleikar Alingsås eru úr sögunni eftir þetta tap og önnur úrslit dagsins.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 14 skot hjá GOG þegar liðið vann Trimo Trebnje frá Slóveníu 32:31 í Danmörku. Viktor var með 33% markvörslu en lagði fleiri lóð á vogarskólarnar því hann gaf einnig tvær stoðsendingar. 

Kadetten frá Sviss vann útisigur gegn Tatanbánya í Ungverjalandi 32:30 en Kadetten er undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar. 

Með sigrunum eru GOG og Kadetten nær örugg með að komast áfram í sextán liða úrslit keppninnar en þau eru jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti D-riðils, á eftir þriðja Íslendingaliðinu í riðlinum, Rhein-Neckar Löwen.

Franska stórliðið París St. Germain vann stórsigur á pólska stórliðinu Kielce 37:26 í Meistaradeild Evrópu en Sigvaldi Björn Guðjónsson lék ekki með Kielce að þessu sinni. Kielce er þrátt fyrir skellinn enn í efstua sæti A-riðils með 17 stig en Flensburg með 15 stig og París SG með 12 eiga hinsvegar bæði þrjá leiki til góða á Pólverjana.

Viktor Gísli Hallgrímsson lagði sitt af mörkum í sigurleik GOG.
Viktor Gísli Hallgrímsson lagði sitt af mörkum í sigurleik GOG. AFP
mbl.is