Líkaminn gaf sig á leið inn í klefa

Geir Guðmundsson er uppalinn hjá Þór á Akureyri.
Geir Guðmundsson er uppalinn hjá Þór á Akureyri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líður nokkuð vel svona miðað við aðstæður allavega,“ sagði Geir Guðmundsson, leikmaður Hauka í úrvalsdeild karla í handknattleik, í samtali við mbl.is í dag.

Geir fékk slæmt höfuðhögg í leik Hauka og ÍR í Austurbergi í Breiðholti í elleftu umferð Olísdeildarinnar í gær með þeim afleiðingum að flytja þurfti leikmanninn á sjúkrahús.

Leiknum lauk með 29:26-sigri Hauka sem eru með 17 stig í efsta sæti deildarinnar eftir tíu spilaða leiki en Geir er næstmarkahæsti leikmaður Hauka á tímabilinu með 35 mörk í tíu leikjum.

„Ég er með hausverk og því fylgir ógleði sem kemur og fer. Ég er mjög orkulaus og viðkvæmur fyrir bæði hávaða og birtu.

Ég þurfti að taka próf í Háskólanum í morgun og það var ágætis brekka að reyna að komast í gegnum það en það hafðist að lokum.

Ég lét kennarann hins vegar vita af uppákomunni í gær og hún sýndi þessu fullan skilning,“ bætti Geir við.

Geir Guðmundsson í leik með Cesson-Rennes í Frakklandi en hann …
Geir Guðmundsson í leik með Cesson-Rennes í Frakklandi en hann snéri heim úr atvinnumennsku síðasta sumar og gekk til liðs við Hauka. Ljósmynd/Cesson-Rennes

Gat ekki horft á leikinn

Geir fékk höggið þegar um tíu mínútur voru liðnar af leiknum en fann ekki almennilega fyrir því fyrr en tuttugu mínútum síðar.

„Þetta var virkilega skrítið allt saman því ég er með fulla meðvitund strax eftir höggið. Svo fæ ég aðstoð við að fara út af vellinum og um leið og ég sest niður finn ég það að ég get ekki horft á leikinn. Ég starði þess vegna bara niður í jörðina og svo í hálfleik, sirka tuttugu mínútum eftir höggið, þá stend ég upp og ætla ganga inn í klefa sem er einhver sextíu metra ganga frá vellinum.

Þegar ég var hálfnaður þá gat ég ekki meir og var bara gjörsamlega búinn. Þá byrjaði ég að ofanda og náði ekki andanum. Ég fékk aðsvif og hneig niður en sem betur fer var Elli sjúkraþjálfari þarna við hliðina á mér og hann greip mig strax. Ég hafði enga stjórn á líkamanum og var með óráði. Eftir það var ákveðið að hringja á sjúkrabíl sem fór með mig á Landspítalann þar sem ég var útskrifaður um hálfellefuleytið í gærkvöld.

Þetta var mjög óþægilegt allt saman og ég get alveg viðurkennt að ég fann fyrir hræðslu þegar ég áttaði mig á því að ég hafði í raun enga stjórn á líkamanum og mér sjálfum. Það er hins vegar fínt að það komi fram að Eyþór Hilmarsson [leikmaður ÍR] heyrði í mér strax eftir leik og baðst afsökunar á því að hafa brotið á mér. Þetta var óviljaverk og hann er góður drengur. Svona hlutir gerast í handbolta.“

Geir Guðmundsson í leiknum í gær.
Geir Guðmundsson í leiknum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mesti skellurinn

Geir vonast til þess að snúa aftur á völlinn sem fyrst en Haukar mæta KA í KA-heimilinu á Akureyri fimmtudaginn 25. febrúar í frestuðum leik úr fimmtu umferð Olísdeildarinnar.

„Þegar ég er orðinn einkennalaus undir áreynslu þá er ég orðinn nægilega góður til þess að spila á nýjan leik að sögn lækna. Ég veit hins vegar ekkert hvað það mun taka langan tíma en næsti leikur er á fimmtudaginn og mér finnst ólíklegt að ég geti spilað þann leik.

Það er spilað ansi þétt þessa dagana og ef maður er meiddur í einhvern tíma gæti maður allt eins misst af einhverjum fimm sex leikjum. Ég vona innilega að þetta setji ekki of stórt strik í reikninginn hjá mér og að ég geti snúið aftur sem fyrst.

Það verður allavega jákvætt að mæta aftur á völlinn fyrir framan stuðningsmenn og áhorfendur. Vonandi verður sportið aftur eins og það á að vera eftir það en verst af þessu öllu er að missa líklegast af leiknum gegn KA þar sem ég er mikill Þórsari og það er mesti skellurinn í þessu öllu saman,“ bætti Geir við í samtali við Morgunblaðið.

mbl.is