Með rúmlega fimmtíu prósent markvörslu

Sveinbjörn Pétursson, markvörður Aue.
Sveinbjörn Pétursson, markvörður Aue. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sveinbjörn Pétursson átti mjög góðan leik í marki Aue í kvöld þegar liðið vann sannfærandi útisigur á Elbflorenz, 29:21, í þýsku B-deildinni í handknattleik.

Markverðir Aue léku um það bil hálfan leikinn hvor og Sveinbjörn nýtti sinn tíma vel. Hann varði átta skot, þar af eitt vítakast, og var með rúmlega 53 prósent markvörslu.

Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fjögur mörk fyrir Aue en Rúnar Sigtryggsson er enn við stjórnvölinn hjá liðinu eftir að hafa tekið við því til bráðabirgða snemma í desember þegar aðalþjálfarinn veiktist af kórónuveirunni.

Sigur Aue í kvöld var nokkuð óvæntur því Elbflorenz er í fjórða sæti deildarinnar og var fimm stigum fyrir ofan Aue fyrir leikinn. Aue er nú í sjöunda sæti af nítján liðum með 19 stig úr 16 leikjum, hefur unnið fjóra leiki í röð og á leik eða leiki til góða á flest liðin sem eru ofar á töflunni.

mbl.is