Viktor góður og GOG í sextán liða úrslitin

Viktor Gísli Hallgrímsson í leik með Íslandi á HM í …
Viktor Gísli Hallgrímsson í leik með Íslandi á HM í Egyptalandi. AFP

Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður átti góðan leik með danska liðinu GOG í dag þegar það tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópudeildar karla í handknattleik.

GOG sigraði Trimo Trebnje frá Slóveníu, 30:27, og vann þar með báða leiki félaganna á tveimur dögum. GOG vann þann fyrri í gær, 32:31, en vegna sóttvarnaráðstafana voru báðir leikirnir spilaðir í Ljubljana í Slóveníu.

Viktor varði 15  skot í leiknum og var með 35 prósent markvörslu. Í leik liðanna í gær varði hann 14 skot.

GOG er í öðru sæti D-riðils með 12 stig úr níu leikjum og er öruggt áfram eins og toppliðið Rhein-Neckar Löwen sem er með 15 stig. Fjögur lið fara áfram og þriðja Íslendingaliðið, Kadetten frá Sviss sem er undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, er með 10 stig í þriðja sæti og er líka komið áfram eftir úrslitin í dag en Trimo getur ekki lengur náð Kadetten að stigum.

mbl.is