Hættur eftir þrálát axlarmeiðsli

Valþór Atli Guðrúnarson í leiknum umrædda.
Valþór Atli Guðrúnarson í leiknum umrædda. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Handknattleikskappinn Valþór Atli Guðrúnarson, leikmaður Þórs í úrvalsdeild karla, hefur lagt skóna á hilluna.

Þetta staðfesti hann í samtali við Akureyri.net en Valþór verður þrítugur í mars.

Leikmaðurinn fór úr axlalið í fjórða sinn á ferlinum í leik Þórs og KA í elleftu umferð Olísdeildarinnar í Höllinni á Akureyri um síðustu helgi en leiknum lauk með 21:19-sigri KA.

Valþór hefur verið óheppinn með meiðsli í gegnum tíðina og er nú á leið í sína fjórðu aðgerð á öxl.

„Ég hef þegar farið í þrjár axlaraðgerðir, einu sinni vinstra megin og tvisvar á þeirri hægri; þetta verður því sú þriðja á hægri öxlinni,“ sagði Valþór í samtali við Akureyri.net.

„Það þarf að gera við þetta svo ég renni ekki úr lið við einhverja hversdagslega hluti. Ég held ég segi þetta bara gott núna! Fjórar axlaraðgerðir og ein krossbandsslit eru full mikið. Ég býst við að flestir væru löngu hættir eftir öll þessi meiðsli og þetta var endapunkturinn hjá mér,“ bætti Valþór Atli við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert