KA lagði topplið Hauka

KA-menn fagna sigrinum í kvöld.
KA-menn fagna sigrinum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA vann Hauka 30:28 þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í KA-heimilinu á Akureyri í kvöld. 

Áhorfendur voru loks leyfðir og það lífgaði heldur upp á stemninguna í KA-heimilinu. KA gat komið sér upp í 3. sæti deildarinnar með sigri en Haukar myndu alltaf halda toppsætinu, hvernig sem færi. Þeir gátu samt aukið forskot sitt á FH um tvö stig með sigri. Haukar myndu þá fara í 19 stig og vera með þriggja stiga forustu á toppnum. Það var KA sem vann leikinn 30:28 eftir góða byrjun og spennandi seinni hálfleik þar sem Haukar voru ítrekað við það að snúa leiknum sér í vil. 

Geir Guðmundsson var ekki með Haukum í kvöld en hann fékk þungt höfuðhögg í síðasta leik. Geir er Akureyringur og uppalinn í Þór. Honum hefði nú ekki leiðst að raða inn mörkum í KA-heimilinu í kvöld, eins og hann gerði svo oft fyrir Þór á sínum yngri árum. Heimir Óli heimisson var heldur ekki mað Haukum og Ólafur Gústafsson var enn fjarverandi hjá KA. 

KA byrjaði leikinn mjög vel, eða Haukar bara illa. Haukunum gekk ekkert að finna markið og þeir töpuðu mörgum boltum. KA nýtti sér það og áður en varði þá var staðan orðin 7:1 fyrir KA. Þjálfarar Hauka voru ekki hressir og fannst halla á sína menn í dómgæslunni. Aron Kristjánsson tók á sig tveggja mínútna brottvísun fyrir að hella sér yfir dómarana og eftir það má segja að dómgæslan hafi verið Haukum hliðhollari. Smám saman náðu Haukar vopnum sínum og þeir söxuðu jafnt og þétt á forskot KA fram að hálfleik. Jakob Aronsson kom inn í Haukaliðið og frískaði upp á sóknina sem hafði verið stirðbusaleg. Hálfleikstölur voru 16:14 fyrir KA en Orri Freyr Þórisson klúðraði víti eftir að leiktíma lauk. 

Nicholas Satchwell, markvörður KA, var kominn með 11 varin skot í hálfleik á meðan Haukamarkverðirnir voru með þrjá bolta samtals. 

KA hóf seinni hálfleikinn betur og jók muninn á ný. Darri Aronsson meiddist snemma í hálfleiknum og hafði það klárlega áhrif á leik Haukanna. KA komst í 19:15 en Haukar voru alltaf á hælum Akureyringa. Munurinn var oft eitt mark og Haukar í sókn en Hafnfirðingar náðu aldrei að jafna leikinn. Þegar leið að lokum tókst KA að auka muninn í þrjú mörk og heimamenn héngu svo á forskotinu með löngum og árangursríkum sóknum. 

Af frammistöðu leikmanna ber að nefna Nicholas í marki KA. Hann varði vel í fyrri hálfleik og kom svo með vörslur í lokin þegar mest á reyndi. Jóhann Geir Sævarsson var ískaldur í vinstra horninu hjá KA og skilaði góðum mörkum út vondum færum. Árni Bragi Eyjólfsson var svo maðurinn sem fleytti KA yfir erfiðasta hjallann í seinni hálfleiknum þegar Haukar virtust ætla að ná heimamönnum. 

Langbesti leikmaður Hauka var Þráinn Orri Jónsson en KA-menn réðu ekkert við hann á línunni. Jakob Aronsson leysti Þráinn af á tímabili og sá var að standa sig. Aðrir hafa séð betri daga og þá sérstaklega Atli Már Báruson. Hann var ekki vel stemmdur og hafði allt á hornum sér, svo eftir var tekið.  

KA er í þriðja sæti þegar mótið er hálfnað með 14 stig en Haukar eru á toppnum með 17 stig. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KA 30:28 Haukar opna loka
60. mín. Jóhann Geir Sævarsson (KA) skoraði mark
mbl.is