Taphrinu Selfyssinga lokið

Theodór Sigurbjörnsson, ÍBV, og Atli Ævar Ingólfsson, Selfossi, í grannaslag …
Theodór Sigurbjörnsson, ÍBV, og Atli Ævar Ingólfsson, Selfossi, í grannaslag liðanna árið 2018. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

Það var enginn skjálfti í mönnum þegar Selfoss og ÍBV mættust á Selfossi í kvöld í Olísdeild karla í handbolta. Bæði lið mættu ákveðin til leiks og úr varð hörkuskemmtun sem lauk með 27:25 sigri Selfyssinga. Úrslitin réðust á lokasekúndunum.

Selfyssingar höfðu frumkvæðið á upphafsmínútunum en ÍBV jafnaði 6:6 þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af leiknum og eftir það var jafnt á öllum tölum upp í 11:11. Þá skoruðu Eyjamenn tvö mörk í röð en voru klaufar að verja ekki það forskot fram að leikhléi. Einar Sverrisson jafnaði 13:13 með skoti úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn og þannig stóðu leikar í hálfleik. Gaman að því að þetta voru einu sekúndur Einars inni á vellinum í kvöld.

Afmælisbarn dagsins, fyrirliðinn Hergeir Grímsson, var atkvæðamikill í fyrri hálfleik en Selfyssingar fengu fá mörk fyrir utan, þar sem þeir leituðu mikið inn á línuna. Þar beið Atli Ævar og gerði vel þegar hann fékk boltann. Eyjamönnum voru mislagðar hendur í sókninni en þegar best gekk var Dagur Arnarsson í hlutverki arkitektsins og Hákon Daði Styrmisson nýtti sín skot vel.

Seinni hálfleikurinn var sama skemmtunin. Liðin skiptust á því að hafa frumkvæðið en á lokakaflanum voru Selfyssingar skrefinu á undan. ÍBV jafnaði 24:24 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir en Selfyssingar voru klókari á lokasekúndunum og tryggði fyrrum Eyjamaðurinn Nökkvi Dan Elliðason þeim sigurinn þegar 47 sekúndur voru eftir. ÍBV kastaði boltanum strax frá sér og Hannes Höskuldsson skoraði síðasta mark leiksins í kjölfarið.

Atli Ævar var frábær hjá Selfyssingum með 9/1 mark og Hergeir skoraði 6/2. Vilius Rasimas stóð sig vel á markmannsvaktinni og varði 16 skot. Hjá ÍBV var Hákon Daði Styrmisson atkvæðamestur en hann raðaði inn vítaskotum og skoraði 10/7 mörk. Dagur Arnarsson kom næstur með 4. Björn Viðar Björnsson varði 5 skot í marki ÍBV.

Selfoss hafði tapað þremur leikjum í röð þegar kom að leiknum í kvöld en bættu úr því. Selfoss er með 13 eftir ellefu leiki eins og Valur og Afturelding en liðin eru í 4.- 6. sæti. ÍBV er með 11 stig eftir ellefu leiki í 8. sæti. 

Selfoss 27:25 ÍBV opna loka
60. mín. Nökkvi Dan Elliðason (Selfoss) skoraði mark 47 sekúndur eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert