Akureyringurinn með nýjan samning

Oddur Gretarsson, lengst til hægri, eftir landsleik í janúar.
Oddur Gretarsson, lengst til hægri, eftir landsleik í janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þýska handknattleiksfélagið Balingen skýrði frá því í dag að það hefði framlengt samning íslenska landsliðsmannsins Odds Gretarssonar um eitt ár og hann er því samningsbundinn því til vorsins 2022. 

Oddur er þrítugur hornamaður og hefur leikið lengi í Þýskalandi, fyrst með Emsdetten en síðan með Balingen frá 2017. Hann er Þórsari að upplagi og lék með liði Akureyrar áður en hann fór í atvinnumennsku.

„Mér og fjölskyldu minni líður geysilega vel hérna í Balingen. Við erum með frábært lið og þessvegna er ég gríðarlega ánægður með að hafa framlengt samninginn. Það býr enn mikið í liðinu og við erum á réttri leið og sem betur fer mun ég taka áfram þátt í því á næsta tímabili," segir Oddur á heimasíðu Balingen.

Lið Balingen-Weilstetten, eins og það heitir fullu nafni, er í sextánda sæti af tuttugu liðum í þýsku 1. deildinni í handknattleik, efstu deildinni þar í landi, og er tveimur stigum fyrir ofan fallsæti þegar liðið hefur leikið 18 leiki af 38 á þessu keppnistímabili.

Oddur hefur leikið 26 landsleiki og skorað í þeim 36 mörk og hann er í íslenska landsliðshópnum sem var í gær valinn fyrir leikinn gegn Ísrael í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer 11. mars.

mbl.is