Haukar höfðu talsverða yfirburði

Adam Haukur Baumruk lét mikið að sér kveða í liði …
Adam Haukur Baumruk lét mikið að sér kveða í liði Hauka í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar voru ekki í neinum vandræðum með Gróttu í fyrsta leik kvöldsins í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, en þeir unnu leik liðanna á Ásvöllum 27:15.

Haukar eru þá komnir með 19 stig í efsta sætinu og eru með þriggja stiga forskot á FH sem stendur en FH-ingar sækja Val heim á Hlíðarenda í kvöld. Grótta er áfram með 9 stig í tíunda sæti deildarinnar.

Grótta hefur komið skemmtilega á óvart að undanförnu og hélt í við Haukana til að byrja með. En eftir að Hafnfirðingarnir breyttu stöðunni úr 3:3 í 9:3 varð ekki aftur snúið. Haukarnir komust mest níu mörkum yfir fyrir hlé og staðan var 15:7 í hálfleik.

Staðan var orðin 22:10 um miðjan síðari hálfleik og úrslitin löngu ráðin en Seltirningar náðu aðeins að laga stöðuna.

Haukar: Adam Haukur Baumruk 8, Ólafur Ægir Ólafsson 4, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Þráinn Orri Jónsson 3, Orri Freyr Þorkelsson 3, Jón Karl Einarsson 2, Heimir Óli Heimisson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1, Kristófer Máni Jónasson 1, Þorfinnur Máni Björnsson 1.

Björgvin Páll Gústafsson varði 13/2 skot, 56,5 prósent, og Andri Sigmarsson Scheving 4 skot, 57,1 prósent.

Grótta: Daníel Örn Griffin 3, Ólafur Brim Stefánsson 3, Birgir Steinn Jónsson 3, Andri Þór Helgason 2, Saturo Goto 2, Jakob Ingi Stefánsson 1, Lúðvík Thorberg 1.

Stefán Huldar Stefánsson varði 10/1 skot, 30,3 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert