Sterkir Valsmenn reyndust FH-ingum ofviða

Tumi Steinn Rúnarsson sækir en Ágúst Birgisson verst í leik …
Tumi Steinn Rúnarsson sækir en Ágúst Birgisson verst í leik Vals og FH í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valur vann öruggan 33:26-sigur gegn FH-ingum í Origo-höllinni á Hlíðarenda í Olísdeildinni í handknattleik karla í kvöld. Eftir afar jafnan fyrri hálfleik tóku Valsmenn öll völd í þeim síðari.

Leikurinn byrjaði afar fjörlega þar sem liðin skiptust á að skora. Eftir að staðan var orðin 3:3 snemma leiks tóku gestirnir í FH völdin um stund og skoruðu næstu fjögur mörk, 3:7. FH-ingar héldu fjögurra marka forystunni en þó ekki lengi þar sem eftir að þeir komust í 5:9 skoruðu Valsmenn næstu fjögur mörk og jöfnuðu metin í 9:9.

Eftir það var leikurinn í járnum og komst FH mest í tveggja marka forystu, 11:13, það sem eftir lifði hálfleiks. Valsmenn skoruðu hins vegar næst þrjú mörk og náðu forystunni, 14:13, í fyrsta skipti í leiknum síðan liðið komst í 2:1 eftir tæplega tveggja mínútna leik.

Áfram var þó mikið jafnræði með liðunum og voru hálfleikstölur 15:15. Markmenn beggja liða reyndust afar drjúgir í fyrri hálfleiknum þar sem Martin Nagy í marki Vals varði 10 skot og Phil Döhler í marki FH sjö.

Í síðari hálfleiknum mættu Valsmenn afar ákafir til leiks og tóku fljótt öll völd. Eftir að hafa komist fjórum mörkum yfir, 22:18, litu þeir aldrei til baka. Vörnin stóð vaktina afar vel og Nagy hélt áfram að verja vel á mikilvægum augnablikum, auk þess sem sóknarleikurinn var til mikillar fyrirmyndar. Mest náðu Valsmenn átta marka forystu, 29:21. FH-ingar löguðu stöðuna aðeins en á endanum var það aðeins eitt mark og Valsmenn unnu þar með að lokum góðan sjö marka sigur.

Nagy endaði með 18 varin skot og tæplega 41 prósent markvörslu. Markahæstur í liði Vals var Tumi Steinn Rúnarsson með 10 mörk úr 13 skotum, auk þess sem hann lagði upp önnur sex mörk.

Markahæstur í liði FH var Einar Örn Sindrason með sjö mörk úr átta skotum. Þá kom Birkir Fannar Bragason sterkur inn af bekknum í markinu og varði sjö skot af 15, sem er 46,5 prósent markvarsla.

Valur fer með sigrinum upp í fimmta sæti Olísdeildarinnar en FH er áfram í öðru sæti.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 33:26 FH opna loka
60. mín. Andri Finnsson (Valur) skoraði mark
mbl.is