Stórsigur Aftureldingar á Akureyri

Blær Hinriksson skoraði 9 mörk fyrir Aftureldingu í kvöld og …
Blær Hinriksson skoraði 9 mörk fyrir Aftureldingu í kvöld og skýtur hér að marki Þórsara. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Afturelding vann 36:24 stórsigur á Þórsurum frá Akureyri í Olísdeild karla í handbolta í Íþróttahöllinni á Akureyri nú í kvöld. Leikurinn var hluti af 12. umferð deildarinnar og átti upphaflega að fara fram í gær.

Fyrri hálfleikur var fínasta skemmtun. Gestirnir voru þó alltaf skrefinu á undan og náðu fljótlega þriggja marka forystu. Guðmundur Bragi Ástþórsson hélt áfram að spila vel og var með fjögur mörk og sjö stoðsendingar í fyrri hálfleik. Munurinn á liðunum var mest sex mörk þegar 24 mínútur voru liðnar. Þá tóku Þórsarar leikhlé og eftir það náðu þeir að minnka muninn. Staðan í hálfleik var 18:15 gestunum í vil. 

Heimamenn minnkuðu muninn í tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks en eftir það sáu þeir varla til sólar. Sóknarleikurinn gekk afar brösuglega eins og svo oft áður í vetur. Varnarleikur heimamanna gekk einnig illa og Afturelding raðaði inn mörkunum. Það fór svo að leikurinn endaði með 12 marka sigri gestanna, 36:24.

Blær Hinriksson var markahæstur gestanna með 9 mörk. Gunnar Malmquist Þórsson kom þar á eftir með 8. Guðmundur Bragi gerði 5 mörk og átti 11 stoðsendingar. Hjá heimamönnum var Ihor Kopyshynskyi markahæstur með 6 mörk en Sigurður Kristófer Skjaldarson kom þar á eftir með 5 mörk.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Þór 24:36 Afturelding opna loka
60. mín. Leik lokið Afturelding með 12 marka sigur.
mbl.is