Karabatic fékk blóðtappa í lunga

Nikola Karabatic í leik með franska landsliðinu.
Nikola Karabatic í leik með franska landsliðinu. AFP

Nikola Karabatic, einn besti handboltamaður heims um árabil, kveðst hafa fengið blóðtappa eftir að hann hóf endurhæfingu í kjölfar krossbandsslita sem hann varð fyrir í leik með París SG í október.

Karabatic staðfesti þetta í viðtali við heimasíðu norska handknattleikssambandsins. „Eftir að ég fór í uppskurðinn reyndi ég að hugsa sem minnst um endurhæfinguna. Tveimur vikum síðar var ég strax farinn að ganga um án þess að vera með hækjur og allt var á réttri leið. En síðan fékk ég blóðtappa í lunga, og lá rúmfastur í tíu daga á sjúkrahúsi,“ segir Karabatic í viðtalinu.

Hann kveðst hins vegar vera búinn að ná sér og sé á fullri ferð í endurhæfingunni um þessar mundir og reikni með því að komast aftur inn á handboltavöllinn í sumar. Hann hafi engar áætlanir að svo stöddu um að draga sig í hlé frá handboltanum.

Karabatic er 36 ára gamall og hefur verið í fremstu röð frá sautján ára aldri. Hann hefur skorað rúmlega 1.200 mörk í 313 landsleikjum fyrir Frakkland og hefur unnið fjóra heimsmeistaratitla, þrjá Evrópumeistaratitla og tvö ólympíugull með franska landsliðinu. Þá hefur hann orðið tíu sinnum franskur meistari með París SG og Montpellier, tvisvar orðið spænskur meistari með Barcelona og þrisvar unnið Meistaradeild Evrópu. Meiðslin urðu til þess að hann missti af heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í janúar á þessu ári.

mbl.is